Skattfrádráttur meðlagsgreiðenda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:46:31 (813)

1998-11-03 17:46:31# 123. lþ. 18.14 fundur 120. mál: #A skattfrádráttur meðlagsgreiðenda# þál., Flm. ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:46]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fellst fyllilega á þau rök sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir setti fram áðan og komu að ýmsu leyti fram líka hjá þeim sem áður talaði.

Að sjálfsögðu þurfum við að skoða jafnræði. Að sjálfsögðu þurfum við að skoða einmitt hag þess aðila, sem oftast er reyndar konan, við uppeldi barnsins. Svo sannarlega eru hin dæmin til þar sem faðir fer með forræði og uppeldi barnanna og geri ég engan mun á. En staðreyndin er nú einu sinni sú að oftast eru það konurnar sem taka það hlutverk að sér. Þetta þarf að sjálfsögðu að athuga.

En það er sammerkt viðbrögðum ríkisvaldsins að ríkisvaldið er ekki tilbúið til að koma með neinum hætti til móts við meðlagsgreiðendur eða meðlagsmóttakendur. Á þetta lét ég reyna í þeirri formennsku sem ég stóð í til að reyna að bæta hag meðlagsgreiðenda, meðlagsmóttakenda og jöfnunarsjóðsins um leið. En á meðan ríkisvaldið er ekki tilbúið til að koma til móts við þetta fólk og jöfnunarsjóðinn þá gerist ekki neitt. Það er enginn aflögufær í þessu, hvorki sá sem elur upp barnið, eins og kom réttilega fram hjá hv. þm., né heldur hinir sem greiða.

Því miður hef ég ekki þær tölur sem hv. þm. bað um, en hitt get ég fullyrt: Það stórfjölgaði skuldum og þær hækkuðu og jöfnunarsjóðurinn komst í stórfelldan vanda þegar meðlagið var hækkað um 36%, þó ekki veitti af þeirri hækkun. Um þetta var gerð skýrsla og mjög ítarleg úttekt sem Löggiltir endurskoðendur hf. gerðu fyrir umrædda nefnd og væri mjög þarft að birta þá skýrslu hér í hv. Alþingi til upplýsingar.

Við skulum, virðulegi forseti, líka gera okkur grein fyrir því að það er erfitt um þetta að tala, ekki aðeins milli meðlagsmóttakenda og meðlagsgreiðenda, heldur líka að meðlagsgreiðendur eru afar misjafnir. Sumir eiga skilið mikla hjálp en aðrir hafa farið illa að ráði sínu þannig að maður efast um hvort ríkisvaldið eigi að koma þeim til aðstoðar.