Ráðstafanir í skattamálum

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 18:01:12 (819)

1998-11-03 18:01:12# 123. lþ. 18.15 fundur 170. mál: #A ráðstafanir í skattamálum# (endurákvörðun skatta, breyting ýmissa laga) frv., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[18:01]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem ég flyt ásamt hv. þm. Ágústi Einarssyni um ráðstafanir í skattamálum. Með þessu frv. leggjum við til að breytt verði ýmsum lögum sem varða tekjuskatt, eignarskatt og ýmis önnur opinber gjöld. Meginmarkmið þessara laga er að auka jafnræði og sjá til þess að gagnvart skattyfirvöldum njóti skattþegnar jafnræðis á við hið opinbera.

Forsaga þessa máls, herra forseti, er að í fyrra fluttum við, þessir tveir þingmenn, svipað mál sem gekk að vísu talsvert skemmra. Það fjallaði um endurgreiðslu oftekinna skatta og í umfjöllun efh.- og viðskn. hlaut málið mjög gott brautargengi og nefndin lagði til að það yrði samþykkt af þinginu. Þegar málið hafði hins vegar gengið út úr efh.- og viðskn. og var aftur komið í þingið var vakin athygli af hálfu fjmrn. á því að talsvert vantaði upp á að frv. gengi nægilega langt til þess að það næði þessum markmiðum. Nú höfum við endurgert þetta frv. og flutt það aftur í gjörbreyttri mynd.

Með frv., sem er eins konar bandormur, er gert ráð fyrir því að breytingar í þessa veru verði gerðar á sex lögum, þ.e. lögum um tekjuskatt og eignarskatt, um fjáröflun til vegagerðar, um staðgreiðslu opinberra gjalda, um tollalög, um virðisaukaskatt og um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Efnislega má segja að breytingin sem lögð er til á öllum þessum lögum sé ein og hin sama. Við leggjum til að ef í ljós kemur að álagning á skattþegn hafi verið of há þá geti hann krafist þess að viðkomandi skattyfirvald ákvarði honum skatt upp á nýtt sex ár aftur í tímann, og það er talið frá byrjun þess árs þegar krafan um endurupptökuna kemur fram.

Eins og ég sagði, herra forseti, er þetta til þess að ná fram jafnræði skattþegns annars vegar og hins vegar hins opinbera. Við erum með frv. að freista þess að jafna aðstöðumun milli skattyfirvaldanna og þegnanna þegar kemur að því að endurákvarða opinber gjöld og skatta. Í dag er það svo að skattyfirvöld og tollstjórar hafa heimild til þess að endur\-ákvarða skatta og raunar önnur gjöld sex ár aftur í tímann frá því að þeim hefur orðið kunnugt um að upplýsingar í skattframtali hafi ekki verið fullnægjandi.

Ákvæðin sem er að finna um þetta efni í núgildandi lögum eiga þó öll það sammerkt að þarna er um að ræða heimild skattstjóra en ekki skyldu. Reynslan sýnir hins vegar að þessa heimild nýtir skattstjórinn án undantekninga, næstum án undantekninga ef um það er um að ræða að skattþegn hafi ekki goldið réttilega gjöld og skatta. Hins vegar er líka ljóst að þessi heimild er alls ekki nýtt í sama mæli ef um það er að ræða að skattþegn hafi einhverra hluta vegna greitt of háa skatta.

Það má segja, herra forseti, að kveikjan að þessu frv. hafi verið dómur Hæstaréttar sem felldur var 19. des. 1996. Þar var viðurkenndur réttur stefnanda til þess að gjaldfæra á skattframtali sínu sín eigin lífeyriskaup, enda var um að ræða sjálfstæðan atvinnurekanda. Hér var um að ræða stefnubreytingu miðað við fyrri túlkun yfirskattanefndar og raunar áður ríkisskattstjóra.

Í kjölfar þess að dómurinn var felldur komu fram kröfur af hálfu fjölda skattþegna um að skattar þeirra væru í ljósi þessarar stefnubreytingar endurákvarðaðir sex ár aftur í tímann, með vísan til þeirrar heimildar sem ég hef rakið í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Því var hins vegar alfarið hafnað af hálfu skattyfirvalda. Yfirvöld bentu á að skattkröfur fyrnist á fjórum árum og þar af leiddi að skattþegnar ættu ekki rétt á að þeim væru endurákvarðaðir skattar vegna þessa dóms Hæstaréttar nema síðustu fjögur árin frá því að beiðnin um endurupptöku kom fram.

Við sem flytjum þetta mál teljum að það sé afar mikilvægt að gagnvart ríkisvaldinu sé jafnræði skattþegnanna tryggt varðandi endurákvörðun skatta. Ef breytingar verða á lagatúlkun, sem eru skattþegni í vil, þá viljum við og leggjum það til með þessum breytingum að viðkomandi eigi ótvíræðan rétt til þess að krefjast þess að honum verði endurákvarðaður skattur sex ár aftur í tímann með nákvæmlega sama hætti og yfirvöld skattamála hafa talið sér skylt og heimilt að endurákvarða slíkan skatt ef það er til hagsbóta fyrir ríkissjóð.

Frv. er raunar einnig ætlað að ná til allra annarra atriða sem kunna að leiða til þess að skattþegn hafi ofgreitt skatta. Ég nefni sem dæmi, herra forseti, að ef skattþegn kemst að því að hann hefur heimild til þess að draga tiltekinn rekstrarkostnað frá tekjum, eða ef hann fær vitneskju um einhvers konar ívilnun í skattalögum sem hann hefur ekki vitað af áður eða ekki nýtt sér einhverra hluta vegna, þá á hann að eiga þess kost --- og það skiptir ekki máli að okkar mati í þessu sambandi hvaða atvik það eru sem breytast skattþegninum í vil --- telji hann sig sannanlega hafa ofgreitt skatta þá á hann samkvæmt þessu að eiga kröfu á yfirvöld skattamála að þau endurákvarði honum skatta sex ár aftur í tímann en ekki fjögur.

Herra forseti. Ég vil líka vekja sérstaka athygli á ákvæði til bráðabirgða sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

,,Fjármálaráðherra skal fyrir árslok 1999 láta fara fram heildstæða úttekt á öllum þeim sköttum og gjöldum sem ríki og sveitarfélög leggja á einstaklinga og lögaðila hér á landi og hvaða málsmeðferðarreglur gilda um endurákvörðun slíkra skatta. Í framhaldi af þeirri úttekt skal fjármálaráðherra láta semja lagafrumvarp sem tryggi jafnræði skattþegna og hins opinbera við endurákvörðun skatta og opinberra gjalda á öllum sviðum skattlagningar.``

Við höfum ekki átt þess kost að fara algjörlega út í hörgul á öllum þeim lögum og reglum sem kunna að varða opinber gjöld og skatta. Okkur hefur einfaldlega ekki gefist tóm til þess að láta fara fram eða gera sjálfir heildstæða úttekt á öllum þeim reglum um málsmeðferð sem gilda um endur\-ákvörðun opinberra gjalda og skatta hér á landi. Þess vegna teljum við, til þess að taka af allan vafa, að fjármálaráðherra skuli hlutast til um að slík úttekt verði gerð á öllum tegundum skatta og á öllum tegundum opinberra gjalda.

Í framhaldi er það tillaga okkar samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði að hann tryggi að þeirri úttekt lokinni að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp eða frumvörp til þess að hrinda í framkvæmd þeim breytingum sem úttektin bendi til að nauðsynlegt sé að verði gerðar til þess að fullt jafnræði ríki á milli skattyfirvalda og skattþegna þegar kemur að ákvörðun slíkra gjalda og skatta.

Herra forseti. Ég vænti þess, miðað við meðferð hins háa Alþingis á forvera þessa frv. á síðasta þingi, að það fái jákvæða meðferð og við fáum að sjá það hér aftur með svipaðri umsögn frá efh.- og viðskn. og hið fyrra fékk. Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til þeirrar sömu nefndar, efh.- og viðskn.