Ráðstafanir í skattamálum

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 18:18:54 (822)

1998-11-03 18:18:54# 123. lþ. 18.15 fundur 170. mál: #A ráðstafanir í skattamálum# (endurákvörðun skatta, breyting ýmissa laga) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[18:18]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Til að leiðrétta allan misskilning gat ég þess að hlutir eins og hlutafjárvild, ,,opsjónir``, kunni að valda vandræðum hjá skattyfirvöldum varðandi ákvörðun á tekjum og það sé rétt að menn reyni að hindra slík vandamál áður en þau koma upp með því að setja reglur sem taka á þessu tekjuhugtaki.

Varðandi það sem hv. þm. kom inn á með skattsvikin og það að vera að refsa. Mönnum hættir til að líta of sterkt á þá sem eru að svíkja og pretta og til þess að reyna að ná í skottið á þeim eru settar mjög stífar reglur sem yfirleitt koma niður á þeim sem eru heiðarlegir og gera allt rétt. Það er nefnilega þannig að mikið af þeim reglum sem settar eru eru til að reyna að koma í veg fyrir að menn misnoti og svindli á kerfum en um leið hamla þær og koma niður á þeim sem raunverulega gera allt saman hárrétt og kórrétt og ætla sér að gera það. Þetta er mjög sterkt sjónarmið og mjög sterkt viðhorf og ég fagna því að hv. þm. hafi séð hvað það getur skaðað mikið þegar menn festast í þeirri hugsun að líta á atvinnulíf sem glæpastarfsemi.