Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 18:54:00 (827)

1998-11-03 18:54:00# 123. lþ. 18.16 fundur 172. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[18:54]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði hvort núverandi stjórnarfyrirkomulag hefði reynst illa og benti á að ávöxtun sjóðanna hafi verið mjög góð. Það var ekkert skrýtið. Hér var ríkissjóður rekinn með bullandi halla ár eftir ár og hann var óseðjandi hít í því að gleypa fé lífeyrissjóðanna sem og annarra fé og hélt þannig uppi vöxtum. Það var eiginlega snilld ef menn komust hjá því að ná hárri ávöxtun eins og reyndar Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins tókst með ágætum því að hann hefur náð lakari ávöxtun en aðrir sjóðir.

Hinir sjóðirnir gátu ekki annað en náð góðri ávöxtun í ljósi þess markaðar sem þeir lifðu í. Nú er það að breytast. Eins og hv. þm. benti á er ávöxtunin að lækka og eins og ég benti á fyrr í dag var ávöxtunin í morgun 3,96% á langtímalánum ríkissjóðs og þegar þeir nálgast 3,5%, sem gerist væntanlega eftir hálft ár, fer að hrikta í stoðum lífeyrissjóðakerfisins og alveg sérstaklega í stoðum almennu sjóðanna sem þurfa að skerða lífeyri á meðan iðgjaldið í opinbera sjóðinn snarhækkar sem sjóðfélagar hinna lífeyrissjóðanna þurfa að borga líka.

Ég tek það fram vegna þess sem hv. þm. spurði að sjóðfélagar eiga ekki peninga í lífeyrissjóðnum, þeir eiga réttindi og það er munurinn á sameignarsjóði og séreignarsjóði að þeir eiga réttindi, þeir eiga réttinn til þess að fá lífeyri ef þeir verða öryrkjar, ef þeir falla frá um aldur fram eða verða mjög gamlir. Það eru því þessi réttindi sem hægt er að meta til fjár og hægt er að reikna tryggingafræðilega hárrétt út upp á krónu og eyri og senda manninum yfirlýsingu um að hann eigi þessi réttindi sem eru andvirði þetta margra króna.