Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 13:24:24 (837)

1998-11-04 13:24:24# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[13:24]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég held að ég megi fullyrða það að ríkisstjórnin sé einbeitt í að reyna að bregðast við þessum vanda sem upp er kominn og hefur reyndar að hluta til verið fyrir hendi í þjóðfélaginu og verið er að kanna ýmsar leiðir. Ein er sú eða hluti lausnarinnar til að stytta biðlistana gæti verið að taka neyðarvistunina út af Stuðlum og fjölga rýmum í greiningarmeðferð þar. Við höfum undanfarið verið að leita að húsnæði sem gæti hentað til að koma annaðhvort neyðarvistun eða jafnvel frumgreiningu fyrir. Við höfum leitað til Reykjavíkurborgar og Rauða krossins um samvinnu um það atriði og þeir aðilar hafa brugðist vel við.

Ég tel líka mikilvægt að hafa samvinnu við frjáls félagasamtök eða samtök áhugamanna og hugsjónafólks og reyna að samhæfa kraftana. Ég nefni að í morgun kom til mín í viðtal í ráðuneytið bæði fulltrúi Virkisins sem hefur nýfengið starfsleyfi frá Barnaverndarstofu og þar með stimpil sem meðferðarúrræði og ef mínar upplýsingar eru réttar er þar rými fyrir 14 einstaklinga. Enn fremur komu fulltrúar frá Vímulausri æsku. Þeir hafa löngun til að setja á stofn foreldrahús sem gæti veitt ráðgjöf til foreldra sem hafa lent í þessari ógæfu. Við eigum samstarf við Reykjavíkurborg og Rauða krossinn í Heilsuverndarstöðinni um fjölskylduráðgjöf.

Vandinn er sá að greiningin tekur að mínu mati mjög langan tíma. Það væri hægt að stytta biðlistana ef hægt væri að hraða þessari greiningu. Hún tekur 3--4 mánuði eins og stendur. Ég tel að það ætti að vera hægt að sjá það á styttri tíma hvaða unglingar eða hvaða ungmenni þarfnast langtímameðferðar og við ættum að reyna að leggja áherslu á að fjölga langtímameðferðarúrræðunum svo sem frekast er kostur. Það eru nokkur meðferðarúrræði sem eru á döfinni. Í gang er að fara meðferðarheimili á Hvítárbakka í Borgarfirði. Það er hægt að fjölga meðferðarrýmum á heimilinu í Varpholti hjá Skjaldarvík um fjögur, það er hægt að bæta þar fjórum rýmum við en til þess þarf Ríkisútvarpið að gefa eftir húsnæði sem það hefur enn þá umráð yfir en hefur haft uppi loforð um að rýma en er ekki búið að því enn.

Um áramót tekur til starfa meðferðarheimili fyrir erfiðustu unglingana í Háholti í Skagafirði. Það er mjög dýrt úrræði en þar er hugmyndin að vista þá sem erfiðastir eru viðureignar.

Í Árbót í Þingeyjarsýslu hefur verið rekið meðferðarheimili um langan tíma með mjög góðum árangri. Þar er hugmynd forráðamanna að útvíkka starfsemina og bæta við 4--5 rýmum. Forstöðumaður Barnaverndarstofu er ef ég veit rétt einmitt í dag fyrir norðan að kanna aðstöðu þar. Ég vek sérstaka athygli á þessari meðferð eða þeim meðferðarárangri sem hefur náðst í Árbót. Þar hefur verið rekið heimili og búið að útskrifa þaðan um 20 ungmenni út í lífið. Nú veit ég ekki hvernig þeim vegnar. Ég hef fregnað að sumum vegni vel en eitt er þó víst að af þessum 20 hefur ekkert lent í fangelsi enn og það finnst mér segja nokkra sögu, að þarna sé um að ræða aðferð sem dugi vel en þetta er rekið eftir fyrirmynd frá Hassela í Svíþjóð. Þá má geta þess að SÁÁ hefur unnið mikið starf og einstaklingar fengið þar bót.

Á Stuðlum eru núna 25 á biðlista. Þennan biðlista er náttúrlega nauðsynlegt að stytta sem allra mest og að því er unnið baki brotnu.

Spurt var um kostnaðinn og hvað hækkun sjálfræðisaldursins kostaði. Hv þm. fór með tölur sem eru hærri en ég hef áður heyrt. Ég hef verið að tala um a.m.k. 90--100 millj. sem beinlínis ákvörðun Alþingis um hækkun sjálfræðisaldurs hefur í kostnaðarauka fyrir félmrn. Af þessum 90 millj. eru í fjárlagafrv. 20 millj. eins og stendur. 10 millj. eru á fjáraukalögum eða koma á fjáraukalög og 30 millj. til viðbótar hef ég fengið samþykkt í ríkisstjórninni að leggja til viðbótar í fjárlög ársins 1999. Það eru sem sagt komnar 60 millj. eða eru í hendi af þessum 90 millj.

Spurt var um hlutverk Barnaverndarstofu í barnaverndargeiranum. Ég tel að mjög mikilvægt sé að efla barnaverndarnefndirnar og reyna að láta þær starfa með sem allra faglegustum hætti og taka yfir víðara svæði. Þeim hefur fækkað mjög mikið undanfarið og umdæmi þeirra hafa stækkað. Þær eru 61 sem stendur. Ég held að Barnaverndarstofa vinni gott starf og ég vil efla það og ég sé ástæðu til að skjóta skildi fyrir forstöðumann Barnaverndarstofu í þessari umræðu.

Varðandi forvarnirnar er auðvitað mjög nauðsynlegt að efla tollgæslu og lögreglu og við viljum efla forvarnir sem mest við megum.