Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:05:35 (843)

1998-11-04 14:05:35# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), SP
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:05]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. fyrir umræðuna. Það er ljóst að þó að menn greini nokkuð á um umfang fíkniefnavandans þá er hann fyrir hendi og á honum verðum við að taka.

Mér þykir rétt að undirstrika það í þessari umræðu að á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin unnið markvisst í vímuvarnamálum. Strax í upphafi ársins 1996 var á vegum ríkisstjórnarinnar hrundið af stað vinnu til að stemma stigu við vaxandi neyslu barna og ungmenna á fíkniefnum, áfengi og tóbaki. Hinn 3. des. 1996 samþykkti ríkisstjórnin síðan heildstæða áætlun í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.

Fyrsti þátturinn í áætluninni er sérstök stefna ríkisstjórnarinnar á þessu sviði og í þessari stefnu eru sett fram áhersluatriði allt fram til ársins 2000. Þau eru í fyrsta lagi að efla forvarnir, einkum þær sem beint er að einstaklingum sem eru í áhersluhópum gagnvart notkun fíkniefna, áfengis og tóbaks. Í öðru lagi að hefta aðgang barna og ungmenna að fíkniefnum, áfengi og tóbaki. Í þriðja lagi að auka öryggi almennings með fækkun fíkniefnatengdra brota. Í fjórða lagi að efla andstöðu í þjóðfélaginu gegn notkun barna og ungmenna á fíkniefnum, áfengi og tóbaki. Í fimmta lagi að efla meðferðarúrræði fyrir ungmenni sem orðið hafa fíkninni að bráð. Þetta ber auðvitað að undirstrika.

Í stefnu ríkisstjórnarinnar felst að hún beitir sér markvisst fyrir því að allir þeir sem að þessum málaflokki koma, jafnt opinberir aðilar sem einkaaðilar, taki höndum saman og sameini viðbrögð, aðgerðir og samstarf með það fyrir augum að uppræta fíkniefnaneyslu barna og ungmenna.

Nauðsynlegt er að fram komi að um árabil hafa aðilar sem sinnt hafa vímuvörnum kallað eftir stefnu ríkisstjórna. Því kalli var ekki sinnt fyrr en með samþykki ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar 3. des. 1996. Þetta er mikilvægt að undirstrika í umræðunni.

Annar þátturinn í áætlun ríkisstjórnarinnar er stofnun áfengis- og vímuvarnaráðs. Ráðið hefur nú verið skipað og undirbúningur að starfi þess hafinn. Eins og hv. alþm. muna er ráðinu ætlað víðtækt hlutverk í áfengis- og vímuvörnum. Þriðji þátturinn í áætlun ríkisstjórnarinnar er aukning fjármuna til forvarna. Fjórði þátturinn í áætlun ríkisstjórnar er efling löggæslu og tollgæslu. Ákveðið var að á hverju ári í þrjú ár skyldi verja 65 millj. kr. til eflingar þessara þátta. Hæstv. menntmrh. fór rækilega yfir þann þátt hér áðan. Fimmti þátturinn er stuðningur við ungmenni í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna. Sjötti þátturinn er áætlun ríkisstjórnar í fullgildingu Íslands á tveimur alþjóðasamningum og sjöundi og síðasti þátturinn er verkefnið Ísland án eiturlyfja.

Virðulegi forseti. Allshn. fjallaði sérstaklega um þetta mál á fundi sínum í gær og við höfum fullan hug á að beita okkur fyrir því að haldinn verði sameiginlegur fundur með hv. félmn. og heilbr.- og trmn. þingsins til að fara betur yfir stöðu málsins. Við þurfum samstillt átak í þessum efnum.