Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:28:43 (850)

1998-11-04 14:28:43# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:28]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hörmulegar afleiðingar eiturlyfjanotkunar á líf og heilsu manna koma daglega fyrir sjónir okkar og ráðleysið gagnvart þessari vá er því alltaf jafnaugljóst því hver einstaklingur sem verður þessari fíkn að bráð er of dýrmætur til þess að við missum hann í eitrið. Vandamál af þessu tagi eru því miður komin til að vera í hröðum heimi og fara enn vaxandi ef ekki er gripið inn í með mun meiri og afgerandi hætti en gert hefur verið fram að þessu.

Aðgerðir okkar hafa fram að þessu snúist að mestu leyti um tvennt. Það er annars vegar að stoppa innflutning og forvarnir og svo hins vegar að bregaðst við með meðferð þeirra sem hafa ánetjast þessum efnum. Verulegur árangur hefur náðst á þessum sviðum sem betur fer þó betur megi gera.

Það sem ég tel þó að þurfi að bæta enn frekar en gert hefur verið fram að þessu er að ná utan um það magn eiturefna sem kemst inn í landið. Það er talið að einungis 10% af þeim vímuefnum sem koma að landamærunum séu tekin við landamærin, 90% af því sem komi hingað að landamærum komist inn á markaðinn og séu þar til dreifingar. Spurningin er því sú hvernig megi bæta eftirlitið á götunni, hvernig á að ná efnunum sem eru til sölu, til neyslu á götunni, á heimilunum og þar sem fólkið er. Ég tel að við getum bætt verulega við á þeim sviðum og þá með fleiri lögreglumönnum á götuna að leita skipulega að eiturlyfjum, ekki tilviljunarkennt. Ég held að skipuleg leit sé nauðsynleg og efling á fíkniefnadeildinni sjálfri og löggæslunni að þessu leyti sé það mikilvægasta sem við getum gert til að ná betri tökum á þessum vanda. Að sjálfsögðu á að auka enn frekar allar fyrirbyggjandi aðgerðir eins og fræðslu ungmenna af hættunni af þessari miklu vá. Eins ber að bæta meðferð þeirra sem í henni hafa lent og ég tek undir það með þeim sem hér hafa talað og einnig hv. málshefjanda að það má einskis láta ófreistað til að ná utan um vandann.