Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:54:44 (858)

1998-11-04 14:54:44# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:54]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu. Þriðjungur þingmanna hefur tekið til máls og óvenjulegur einhugur komið fram. Guð láti gott á vita.

Hv. 13. þm. Reykv. spurði um Virkið. Barnaverndarstofa hefur veitt Virkinu starfsleyfi og forstöðumaður Barnaverndarstofu mun vera að hugleiða hvernig best yrði fyrir komið og hvaða möguleikar séu á stuðningi við þessa starfsemi. Ég tel að þarna sé um ódýr úrræði að ræða og án efa komi þau að einhverju gagni. Því er eðlilegt að líta til þeirrar starfsemi með góðum huga.

Eitt finnst mér kannski ekki hafa verið dregið nógu skýrt fram í þessari umræðu þó aðeins hafi verið minnst á það. Það er ábyrgð foreldranna. Það er það forvarnastarf sem foreldrarnir verða að vinna. Það þýðir ekkert að ætla skólunum að ala upp krakkana. Það þýðir ekkert að treysta því að meðferðarstofnanir taki við þeim ef þau hafa verið vanrækt og lent í ógæfu. Það þarf að benda foreldrunum á ábyrgð sína svo þeir vaki yfir börnunum. Það er miklu betra að þeir verji tíma í að tala við krakkana áður en þau lenda í vandræðum fremur en að sálfræðingarnir þurfi að tala við börnin eftir að þau eru komin í ógæfu.

Til barnaverndarmála er varið samkvæmt fjárlagafrv. 318 millj. Fyrirsjáanlega munu um 350 millj. fara í þennan málaflokk í fjárlögum næsta árs. Menn hafa krafist nýrra úrræða og sannarlega er pláss fyrir ný úrræði. En allt kostar þetta peninga. Málefni fatlaðra hafa haft algeran forgang í fjárhagsrömmum félmrn. Málefni barna þurfa aukið fé og hafa reyndar fengið aukið fé. Ef það er vilji Alþingis að leggja meira í fíkniefnameðferð, þá verður Alþingi jafnframt að ákveða frá hvaða málaflokki eigi að taka þá peninga. Ég treysti mér ekki til að taka það fé frá málefnum fatlaðra. (RG: Utan ramma.)