Fjöldi starfsmanna í menntamálaráðuneyti

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:03:34 (862)

1998-11-04 15:03:34# 123. lþ. 20.1 fundur 130. mál: #A fjöldi starfsmanna í menntamálaráðuneyti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér komu fram athyglisverðar upplýsingar. Það er náttúrlega augljóst mál að það er einungis bókhaldsleg fækkun þegar öll stöðugildi sem tilheyrðu fræðslustofunum í umdæmum landsins eru talin til eins og hér er gert. Það er alveg ljóst að þar hafa engar forsendur verið fyrir fækkunum nema síður sé þegar sveitarfélögin fara að reyna að byggja upp í sínu nafni þjónustu sem áður var kostuð af ríkinu.

Það sem er áhugavert eru fyrst og fremst stöðugildin í ráðuneytinu. Það er upplýst hér að fækkað hefur um heil 3,7 stöðugildi í ráðuneytinu við allan flutning grunnskólans á milli stjórnsýslustiga. Nú hef ég ekki á reiðum höndum upplýsingar um stafsmannafjölda ráðuneytisins í heild. Fróðlegt væri ef hæstv. ráðherra upplýsti einnig um fækkunina í því samhengi. Ég hef grun um að þetta séu ekki stór tíðindi hvað varðar mannabreytingar í hinu háa ráðuneyti og ástæða sé til að ætla að raunveruleg hagræðing á þeim vígstöðvum hafi orðið minni en búast mátti við í kjölfar þessarar breytingar. Reyndar fannst mér það hálfpartinn koma fram í útskýringum hæstv. ráðherra þegar hann fór að tala um að mannahaldið í ráðuneytinu hefði síðan breyst af ýmsum öðrum orsökum. Í loftinu lá að eitthvað af því fólki sem áður vann við grunnskólann hefði farið að sinna öðru.

Ég hafði ímyndað mér að þarna væri á ferðinni umtalsverður hluti af starfsemi ráðuneytisins, hinn viðamikli málaflokkur, grunnskólinn, og meiri breytingar hefðu orðið við flutning hans. Ég hef ekki trú á því að sveitarfélögin í landinu gætu tekið við allri umsýslu grunnskólans og sloppið með bara 3,7 stöðugildi í það verkefni. Ég hef ekki trú á því.