Rannsóknarhús við Háskólann á Akureyri

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:14:29 (867)

1998-11-04 15:14:29# 123. lþ. 20.2 fundur 132. mál: #A rannsóknarhús við Háskólann á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:14]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í júlí 1995 skipaði ég starfshóp til að fjalla um framkvæmdir Háskólans á Akureyri að Sólborg. Síðan hefur verið unnið í samræmi við það og farið fram samkeppni um það hvernig húsið verði best nýtt til að háskólinn geti flutt þangað og hvernig eigi að standa að nýframkvæmdum á Sólborgarsvæðinu. Hinn 23. október sl. var fyrsta skóflustungan tekin að fyrstu nýbyggingunni á svæðinu og verður nú ráðist í að reisa þar kennsluhús, vinnuaðstöðu fyrir kennara og skrifstofur. Í fjárlagafrv. er fé ætlað til þess verks fyrir næsta ár en ég tel nauðsynlegt að samið verði um framkvæmdahraða og fjárveitingar í samræmi við hann.

Nefnd sem gerði úttekt á húsnæðisþörf á háskólastiginu og skilaði áliti í maí 1997 lagði til að ráðist yrði í framkvæmdir að Sólborg í áföngum. Samdóma álit þeirrar nefndar og einnig annarra sem komið hafa að því að skipuleggja uppbyggingu á Sólborg var að í fjórða og síðasta áfanga framkvæmdanna yrði ráðist í smíði rannsóknarhúss. Þetta er samdóma álit allra þeirra sem um þetta mál hafa fjallað.

Akureyrarbær bauðst á sínum tíma til að fjármagna rannsóknarhúsið. Í desember á síðasta ári var skipuð nefnd til þess að ræða það mál sérstaklega. Málið hefur og verið rætt milli fulltrúa ráðuneytisins og bæjaryfirvalda með aðild Háskólans á Akureyri. Afstaða mín í þessu máli er skýr. Ég tel að menntmrn. eigi ekki að taka á sig allar skuldbindingar fyrir hönd ríkisins vegna rannsóknarhússins heldur eigi að skilgreina þörf háskólans á rými í húsinu og síðan eigi skólinn að greiða fyrir þá aðstöðu en rannsóknastofnanir og aðrir sem fá aðstöðu í húsinu verði að standa undir sínum hlut af kostnaði við byggingu rannsóknarhússins.

Ég hef einnig látið þá skoðun í ljós að af hálfu menntmrn. beri að leggja höfuðáherslu á að ljúka öðrum og þriðja áfanga framkvæmdanna að Sólborg. Ég tel að við séum nú að hefja annan áfangann með þeirri nýbyggingu sem verið er að ráðast í nú. Vilji menn taka sérstakar ákvarðanir um rannsóknarhúsið og flytja það fram miðað við fyrri tillögur um áfangaskiptingu við byggingu Háskólans á Akureyri þá tel ég að menntmrn. og háskólinn eigi að koma að málinu með því að skilgreina þörf háskólans á rými í húsinu og greiða fyrir þann hluta hússins en aðrir aðilar verði að standa að öðrum kostnaði sem vegna hússins verður.