Rannsóknarhús við Háskólann á Akureyri

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:21:44 (870)

1998-11-04 15:21:44# 123. lþ. 20.2 fundur 132. mál: #A rannsóknarhús við Háskólann á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:21]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég held að ekki sé hægt að draga þær ályktanir af orðum mínum að þetta mál sé í einhverju stoppi eða strandi. Þvert á móti er verið að fjalla um málið. Ég lýsti þeim áherslum sem ég hef í þessu máli, þeirri forgangsröðun sem ég hef við uppbyggingu að Sólborg. Síðan hefur komið fram hugmynd um að ráðast sérstaklega í byggingu á þessu rannsóknarhúsi og auðvitað verður að komast að niðurstöðu um það eins og önnur mál. Ég lít þannig á að sem menntmrh. beri mér fyrst og fremst skylda til þess að nýta það húsnæði sem skólinn hefur þegar til umráða og byggja það þannig upp að það nýtist sem allra best fyrir skólann og að kennslan geti flust sem fyrst á einn stað. Það er verið að gera með þeim nýbyggingum og áformum sem við höfum lagt áherslu á. Allir þeir sem hafa komið að málinu og skoðað það í heild hafa lagt til að rannsóknarhúsið yrði lokaáfanginn í uppbyggingunni að Sólborg þannig að málið stendur svona. Ef menn vilja flýta þessu sérstaklega og ef Akureyrarbær vill leggja fram fé og semja við ríkið um það hvernig það greiðir það fé til baka á einhverju löngu árabili eða hvaða hugmyndir sem menn hafa um það þá er það viðfangsefni sem við erum ekki enn þá búnir að leysa úr. En tillagan liggur fyrir og ég hef lýst því að ég tel að menntmrn. eigi að koma að því að því er varðar húsnæðisþörfina fyrir háskólann sjálfan en ekki fyrir aðrar stofnanir sem falla ekki undir verksvið þess. Við höfum heldur ekkert umboð til að semja fyrir slíkar stofnanir.