Afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:32:49 (876)

1998-11-04 15:32:49# 123. lþ. 20.3 fundur 27. mál: #A afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:32]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Yfirlýsing hæstv. heilbrrh. fannst mér ekki vera neitt annað en ómerkilegt kosningabragð. Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir gagnvart öryrkjum að þessu umdeilda ákvæði verði breytt. En hvenær á að breyta því? Hún ætlar að breyta því eftir kosningar, það kom skýrt fram í fjárlagafrv.

Nú segir hún: Því miður var ekki hægt að setja neitt inn í fjárlagafrv. vegna þess að ekki var vitað um heildarupphæðina, en hún lýsir því sjálf yfir að heildarupphæðin skipti ekki máli vegna þess að hún ætli aðeins að stíga eitt skref. Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra lýsi því yfir hversu stórt skref hún ætlar að stíga og hvenær á að afnema ákvæðið að fullu samkvæmt stefnu ráðuneytisins.

Herra forseti. Ég held að kominn sé tími til að hæstv. ráðherra upplýsi þetta. Hún hefur í rauninni lýst því yfir á aðalfundi Tryggingastofnunar að þetta ákvæði feli í sér mannréttindabrot. Hún ætlar að breyta því, en hún ætlar ekki að gera það fyrr en eftir kosningar. Hún verður að segja okkur hvað þetta skref á að vera stórt og hvenær á að ljúka verkinu.