Afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:33:55 (877)

1998-11-04 15:33:55# 123. lþ. 20.3 fundur 27. mál: #A afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:33]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka talsmönnum jafnaðarmanna fyrir þær undirtektir og stuðning sem ég hef fengið frá þeim við málflutning minn og þakka sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir svörin samkvæmt venju, þó að ég verði auðvitað að segja eins og aðrir að þau hryggja mig mjög. Ég fylltist bjartsýni fyrir hönd þessa hóps þegar ég frétti af yfirlýsingu hæstv. ráðherra á ársfundi Tryggingastofnunar og náði mér í þá yfirlýsingu og sá ástæðu til að reyna að skýra það betur hvenær þetta mikla réttlætismál næði nú fram að ganga.

Nú er það að vísu svo, herra forseti, að hin illræmdu jaðaráhrif eða tekjutengingar í almannatryggingakerfinu eru miklu víðar á ferðinni en þarna. Þar er á ferðinni heill frumskógur og að mínu mati er það eitt allra brýnasta réttlætismál í velferðarkerfi okkar að taka það til endurskoðunar. Ég veit ekki hvort allir þingmenn hafa farið yfir það nýlega og rifjað upp hvernig þessar tekjutengingar og skerðingar eru. En þær eru allhrikalegar eða 30% af tekjum á ellilífeyri umfram viss mörk, 25% á örorkulífeyri umfram viss mörk, 45% af tekjutryggingunni umfram viss mörk og 65% af vasapeningunum, umfram hvað? Umfram skitinn þrjú þúsund kall, rúman. (BH: Og 100% heimilisuppbót.) Og svo auðvitað þar sem tekin er króna á móti krónu, eins og heimilisuppbótin o.fl. Talandi um jaðaráhrif þá eru þetta náttúrlega einhver illræmdustu jaðaráhrif sem fyrirfinnast.

Ég harma að taka eigi þetta aðeins í skrefum. Hér eru ekki á ferðinni upphæðir af því tagi að það ætti að standa í mönnum að taka þetta í gegn í einni lotu. Ég held að menn viðurkenni hvað varðar öryrkja, fjölskyldufólk á miðjum aldri, að þetta óréttlæti er alveg svakalegt. Þessi staða er kannski sú versta og mest niðurlægjandi af öllu sem hér er boðið upp á, og er þá mikið sagt, fyrir þetta fólk sem fjölskyldufólk og sú staða sem það er sett í gagnvart maka sínum.

Ég skora á hæstv. ráðherra að berjast fyrir því hér og hafa til þess stuðning okkar að þetta komi í fjárlagafrv. nú í desember, verði afgreitt fyrir jólin og taki gildi um næstu áramót þannig að það verði ekki í einhverri útideyfu í næstu kosningum og sé vísað inn í framtíðina. Það er ekki það mikið fyrirtæki að kippa þessu í liðinn og taka restina af þessu til endurskoðunar og úrlausnar á næstu mánuðum.