Afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:37:54 (879)

1998-11-04 15:37:54# 123. lþ. 20.3 fundur 27. mál: #A afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:37]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þau lög sem hér er um að ræða hafa verið í gildi síðan 1936. (ÁRJ: Það breytir engu.) Þess vegna langar mig að segja það --- þegar mönnum finnst það langur tími að taka sér nokkra mánuði til endurskoðunar þar sem við erum að vinna með Öryrkjabandalaginu til að gera þetta eins vel úr garði og mögulegt er --- að mér finnst það nú dálítið skrýtið, sérstaklega þegar fyrrv. félmrh. talaði hér áðan. Hún var í sjö ár í félmrn. og ég man aldrei eftir að hún hafi tekið þetta mál upp, aldrei. Og tekjutengingarnar urðu mestar í ríkisstjórnartíð hennar. (Gripið fram í.)

Af hverju tók þáv. hæstv. félmrh. þetta ekki upp þá? Það var ég sem tók þetta upp vegna þess að ég tel þetta vera réttlætismál. Þetta er ekki lögbrot, þetta er réttlætismál. Og þess vegna tók ég það upp.

Og mig langar að segja þingheimi það að ef við mundum samþykkja á morgun frv. sem hér liggur fyrir frá Ástu R. Jóhannesdóttur, þá mundu 70 öryrkjar missa frítekjumark sitt. Það er þess vegna sem fulltrúar Öryrkjabandalagsins eru að vinna með heilbrrn. að því að engir skerðist við þessa breytingu. (ÁRJ: Hversu margir skerðast núna?) Þetta er sannleikur málsins. Við erum að vinna að því að breyta áralöngu óréttlæti. (Gripið fram í.) Þetta er áralangt óréttlæti sem við erum að takast á við og breyta og ég held að þingheimur ætti að halda ró sinni á meðan.

En af því að hv. þm. tala um að þetta sé eitthvað í langri framtíð og eftir kosningar þá sagði ég áðan í ræðu minni og endurtek að þetta málefni verður afgreitt í kringum áramót. (ÁRJ: Í áföngum, hvað er það?)