Störf við loftskeytastöðina á Ísafirði

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:40:26 (880)

1998-11-04 15:40:26# 123. lþ. 20.4 fundur 128. mál: #A störf við loftskeytastöðina á Ísafirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:40]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Mikil umræða fer nú fram um fólksflutninga úr dreifbýli í þéttbýli, af landsbyggðinni og til höfuðborgarsvæðisins. Þessi umræða fer ekki einungis fram á Alþingi, það vita flestir hv. alþingismenn að þessi umræða er mikil og vaxandi úti um allt land.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að ein meginástæða þessara miklu fólksflutninga er einhæfni þeirra starfa sem víða er boðið upp á. Fólk telur sig einfaldlega ekki eiga nógu margra kosta völ í atvinnumálum þó aðrar þarfir séu vel uppfylltar. Það er m.a. talinn liður í árangursríkri byggðastefnu að fjölga opinberum störfum úti á landi, en fjölgun þeirra hefur á undanförnum árum fyrst og fremst orðið á höfuðborgarsvæðinu. Og í ljósi þessa sýnist það hljóta að vera forgangsmál, herra forseti, að stjórnvöld reyndu með tiltækum ráðum að viðhalda þeim störfum sem þegar eru unnin úti á landi, ég tala nú ekki um ef um er að ræða þjónustustörf. Til að leggja slík störf niður eða flytja af landsbyggðinni þá þurfi býsna þung rök.

Vegna þess að niðurlagning loftskeytastöðvarinnar á Ísafirði virðist algerlega andstæð þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar eðlilegri byggðapólitík, eða a.m.k. byggðapólitík í anda þeirra tillagna sem fram hafa verið settar og nú um stundir eru taldar árangursríkastar, þá hef ég lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. samgrh. á þskj. 128:

1. Hvert voru þau störf færð sem unnin voru í loftskeytastöðinni á Ísafirði þegar stöðin var lögð niður nú í sumar?

2. Var þeim starfsmönnum sem unnu við loftskeytastöðina á Ísafirði boðin áframhaldandi vinna hjá Landssíma Íslands hf.? Ef svo var, við hvað og hvar?

3. Er eitthvað í nýrri tækni sem kallar á að þessi störf séu unnin annars staðar en á Ísafirði?