Störf við loftskeytastöðina á Ísafirði

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:47:42 (883)

1998-11-04 15:47:42# 123. lþ. 20.4 fundur 128. mál: #A störf við loftskeytastöðina á Ísafirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:47]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Það komu fram hjá hæstv. samgrh. ýmsar upplýsingar sem margar hverjar lágu í augum uppi. Spurningin var í rauninni sú, sem mér fannst hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem hér talaði á undan mér, orða ágætlega, sem sé þessi: Ef tæknibreytingar verða þannig að störfum fækkar, þarf þeim þá alltaf að fækka úti á landi? Hefur ekki tæknin líka leitt til þess að störfum hefur fækkað í Reykjavík og mátti ekki hugsa þessi mál upp að nýju?

Það þarf fólk til ákveðinna verka, hlusta eftir uppköllum, nefndi hæstv. ráðherrann. Þessar strandstöðvar hafa líka sinnt tilkynningarskyldunni. Það er þannig að þó svo farsímaþjónusta hafi leyst stóran hluta þessara starfa af hólmi, eru ekki öll mið innan þjónustusvæða. Það er því nauðsynlegt að viðhalda ákveðinni þjónustu sem þarf a.m.k. í fyrirsjáanlegri framtíð að hafa fólk til. Þar er e.t.v. ekki síst um að ræða ýmiss konar öryggisþjónustu og það væri fróðlegt að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort hann telur að nægjanlegs öryggis sé gætt með því að vera með alla þessa þjónustu á einum stað og það hér suður í Reykjavík.