Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 11:12:10 (912)

1998-11-05 11:12:10# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[11:12]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir prýðilega ræðu þar sem stefna ríkisstjórnarinnar var vel fram sett. Í ræðu sinni gerði hæstv. ráðherra þá þróun sem hefur orðið innan Evrópusambandsins að talsverðu umtalsefni og í ræðu minni á eftir hyggst ég skýra nokkuð þau viðhorf sem ég hef til þess hvernig staða Íslands hefur breyst sökum þeirrar hröðu þróunar sem nú sér stað hvað varðar samruna innan Evrópusambandsins.

Áður en ég kem að því, herra forseti, langar mig að nefna að í ræðu sinni upplýsti hæstv. ráðherra okkur um það að næsta stórverkefni á sviði utanríkismála sé að afla stuðnings við umsókn okkar um setu í öryggisráðinu. Ég fagna þessu, herra forseti. Ég tel að þessi stefnumótun beri vott um stórhug og metnað fyrir Íslands hönd. Ég held að framboð okkar til setu á þessum vettvangi sé vel fallið til þess að efla vægi okkar á alþjóðavettvangi og ég held að það sé rétt mat hjá hæstv. ráðherra að við eigum töluverða möguleika á því að afla nægilegs stuðnings við þessa umsókn. Við höfum litið á okkur sem góðan fulltrúa smáþjóða. Við höfum reynt að efla vægi smáþjóða og ég tel að okkur hafi tekist að sýna fram á það hvernig smáþjóð getur haft mikil áhrif með málefnalegum og réttsýnum flutningi mála sinna á alþjóðavettvangi.

Ég held líka að sá stuðningur sem við höfum meðal Norðurlandanna og án efa grannríkja okkar fyrir austan þau muni leiða til þess að þarna kunni að verða farsæl niðurstaða. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra greindi frá því að það yrði ekki um formlegt framboð að ræða um allmargra ára skeið en mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvenær hann telji að af þessu framboði geti orðið og sömuleiðis geri ég mér grein fyrir því að kostnaður við slíkt er allverulegur. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann telji að sá kostnaður verði mikill og hvort gert hafi verið ráð fyrir honum af hálfu ráðuneytisins.

Herra forseti. Þróunin í Evrópu einkennist nú af hröðum samruna innan Evrópusambandsins og þróunin í Evrópu einkennist nú af hröðum samruna innan Evrópusambandsins. Þrátt fyrir sífelldar hrakspár allt frá því að sambandið eða forveri þess varð til er Evrópusambandið núna orðið að einu umfangsmesta milliríkjasambandi sem hefur þekkst frá því að mannkynssagan hófst. Ég tel að það sé athyglisvert að hugmyndin sem liggur að baki samrunaþróuninni felur í sér að aðildarríkin telja að mörg erfiðustu viðfangsefni sem þau standa frammi fyrir í nútímanum verði best leyst með því að framselja hluta af ríkisvaldi sínu til sameiginlegra stofnana.

Þegar Íslendingar gerðust aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu undir forustu Alþfl. var það svar okkar Íslendinga við því mikilvæga skrefi sem Evrópusambandið var þá að taka með myndun innri markaðarins. Það var gert í því ljósi að mikilvægustu viðskiptalönd okkar lágu þá innan Evrópusambandsins og myndun innri markaðarins hafði því óhjákvæmilega beina efnahagslega þýðingu fyrir okkur. Ég held að fáum dyljist að Evrópska efnahagssvæðið og sá samningur sem við gerðum um það hafi verið heilladrýgsti milliríkjasamningur sem við höfum gert um áratugaskeið. Þessi samningur tryggði okkur aðgang að innri markaðnum og hann tryggði okkur jafnframt nokkra möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða málefni samningsins og þar með okkar sjálfra. En fyrir utan að tryggja mikilvæga verslunarhagsmuni Íslendinga stappar nærri að allar framfarir í félagslegum efnum sem varða launafólk á Íslandi hafi frá því að samningurinn var gerður orðið að veruleika vegna tilskipana sem við höfum þurft að hlíta í krafti samningsins. Þetta finnst mér mikilvægt að draga hér fram, herra forseti. Ég held að það sé tæpast hægt að draga nokkra verulega framför í þessum efnum sem hefur ekki beinlínis komið að utan.

[11:15]

Þegar þessi samningur var gerður um Evrópska efnahagssvæðið náði hann til verulegs hluta af starfsemi Evrópusambandsins eða Evrópubandalagsins eins og það nefndist. Sambandið er hins vegar í hraðri þróun sem ég tel að kunni að breyta stöðu Íslands og möguleikum gagnvart þessum mikilvæga heimshluta sem Evrópa er fyrir okkur. Í þessu sambandi vil ég einkum nefna fernt.

Í fyrsta lagi liggur það fyrir að bandalagið er á barmi mikillar stækkunar. Þegar hefur stækkun verið samþykkt og það liggur líka fyrir að næstum því öll ríki í Mið- og Austur-Evrópu hafa sótt um aðild að sambandinu. Þessi stækkun í næstu lotu og síðan þar næstu lotu er afar líkleg til þess að hafa áhrif og draga úr vægi okkar innan sambandsins.

Í öðru lagi rifjaði hæstv. ráðherra upp, herra forseti, að breytingar hafa orðið á möguleikum okkar til að hafa áhrif á ákvarðanir Evrópusambandsins sem varða okkur. Sú hálfgildings aukaaðild sem má kannski segja að við höfum haft að sambandinu gegnum Evrópska efnahagssvæðið hefur vitanlega gefið okkur vissan rétt til áhrifa á ákvarðanir í gegnum það samráð í sérfræðinganefndum sem hæstv. ráðherra drap áðan á. Á fundinum í Amsterdam í fyrra þegar Maastricht-sáttmálanum var breytt leiddi það til þess að drjúgur hluti þeirra mála sem falla undir fyrstu stoð ESB, þ.e. EES-málanna, fylgir núna svonefndu samráðsferli sem var sett upp að kröfu Evrópuþingsins til þess að auka vægi þess. Nú er staðan þannig ef upp kemur ágreiningur á milli ráðherraráðsins og Evrópuþingsins og hann leysist ekki að tveimur umræðum loknum getur Evrópuþingið hafnað viðkomandi ákvörðun við 3. umr. og það er auðvitað hlutur sem menn innan þess ágæta sambands vilja ekki að gerist. Til þess að reyna að koma í veg fyrir það kallar þetta eðlilega á að reynt verði að freista málamiðlunar með einhvers konar samkomulagi áður en til 3. umr. kemur. Ég fæ ekki betur séð en að ljóst sé að Ísland getur með engu móti komið að þess konar málamiðlunum og á ekki tök á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á meðan þeirra er leitað. Þetta kallar að mínu mati líka á breytingu á stöðu Íslands og e.t.v. endurmat á aðferðum okkar.

Í þriðja lagi, herra forseti, liggur það fyrir að stefnu sambandsins um sameiginlega mynt verður hrint í framkvæmd innan skamms og þetta kallar líka á breytingar á stöðu Íslands gagnvart Evrópu og getur vitaskuld haft mikla þýðingu fyrir efnahag okkar.

Ég held að þau þrjú af þeim fjórum atriðum sem ég ætla að reifa hérna séu öll fallin til þess að staða Íslands gagnvart Evrópusambandinu er líkleg til þess að veikjast. Þarna er um að ræða mikilvægt viðskiptasvæði fyrir okkur og það skiptir máli hvernig við hyggjumst bregðast við. Ég held að sú þróun sem til að mynda leiðir af fundinum í Amsterdam í fyrra eigi eftir að koma skýrar fram á allra næstu árum og þá muni koma í ljós að áhrif okkar hafa í raun farið minnkandi. Í ræðu hæstv. ráðherra drap hann að vísu á margt sem varðaði Evrópusambandið. Hann kom ekkert inn á þessa þróun sem ég þykist alla vega greina þarna gagnvart stöðu okkar að því er Evrópu varðar. Þar kom ekkert fram hvaða leiðir ríkisstjórnin hyggst fara til þess að tryggja betra vægi okkar. Það má e.t.v. draga þá ályktun að hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar að ekkert sé athugavert við þessa þróun og hún sé ekkert óhagkvæm Íslendingum. Ef svo er vildi ég gjarnan að sú skoðun kæmi fram í seinni ræðum hæstv. ráðherra. Ef þetta er á dagskrá ríkisstjórnar og ef umræða er innan ráðuneytisins á meðal sérfræðinga hennar um þessa þróun og hvernig eigi að bregðast við henni þætti mér rétt að hæstv. ráðherra greindi frá því. Mér finnst svolítið undarlegt í ljósi þess hversu gríðarlega mikilvæg samskiptin eru við ríki Evrópusambandsins ef engin raunveruleg vinna er í gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar til að meta kosti í stöðunni. Ef hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að ekki þurfi að grípa til neinna aðgerða og að vægi okkar sé tryggt finnst mér rétt að hann skýri þau rök sem liggja til grundvallar þeirri skoðun. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji þá að óbreytt staða okkar innan Evrópska efnahagssvæðisins muni að fullu tryggja hagsmuni Íslands í framtíðinni. Ef svarið er neikvætt hvernig telur hann þá að ná eigi því marki.

Herra forseti. Fjórða atriðið sem mig langar til þess að reifa hérna varðar þá þróun sem hefur orðið í öryggis- og varnarmálum Evrópusambandsins. Að minni hyggju eru uppi mikilvægar stefnubreytingar sem varða stöðu Íslands í hinu alþjóðlega öryggiskerfi heimsins. Það hefur verið ágreiningur innan Evrópusambandsins um leiðir í varnarmálum. Ýmsar þjóðir hafa ekki viljað leggja jafnríka áherslu á hlutverk NATO í öryggismálum Evrópu eins og til að mynda við Íslendingar og Stóra-Bretland. Fremst í þeim flokki má nefna Frakka sem hafa að vísu myndað afstöðu sína til NATO á síðustu árum en það er alveg ljóst að stefna Frakka hefur verið sú að byggja upp sérstaka varnarstoð Evrópusambandsins, formlega varnarstoð, og það hefur legið opið að það er afstaða Frakka og fleiri þjóða sem eru á svipuðu róli að Vestur-Evrópusambandið eigi að vera þessi formlega varnarstoð.

Þessi skoðun hefur átt vaxandi stuðningi að fagna og hún hefur m.a. fagnað stuðningi meðal valdamikilla afla í bandaríska þinginu. Þeir hafa vitaskuld viljað efla hugmyndir um sameiginlegan herstyrk Evrópu til þess að eiga kost á að draga úr þeim útgjöldum sem fylgir því að halda úti bandarískum her í Evrópu. Íslendingar hafa hins vegar byggt eigin öryggisstefnu, eins og hæstv. ráðherra fór vel yfir áðan, á ríku öryggishlutverki NATO í Evrópu og þeir hafa ekki stutt þessa stefnu. Fulltrúar Íslands á alþjóðavettvangi, m.a. innan Vestur-Evrópusambandsins, hafa lagst alfarið gegn þessu og það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar sem hefur haft talsvert góða sátt í þinginu. Þar hafa menn staðið gegn því að Vestur-Evrópusambandið færi inn á þessa braut. Í þeim efnum höfum við átt afar sterkan bandamann sem ég nefndi áðan sem er Stóra-Bretland. Nú er hins vegar komin af stað þróun innan Evrópusambandsins sem vinnur hratt gegn þeirri stefnu. Það hefur komið æ skýrar fram hjá ýmsum forustumönnum ríkjasambandsins að ekki verður látið sitja við innri markaðinn eða sameiginlegan gjaldmiðil heldur er í auknum mæli stefnt að því að þróa sameiginlega varnar- og öryggisstefnu fyrir sambandið. Ég rifja upp að forseti ráðherraráðs sambandsins, Viktor Klima, austurríski kanslarinn, sagði í stefnumótandi ræðu á Evrópuþinginu fyrr á árinu að sambandinu væri núna þörf á sterkri sameiginlegri stefnu í þessum málaflokki. Í sumar eða um miðbik síðasta mánaðar gerðist það að merk yfirlýsing kom frá varnarmálaráðherra Breta, George Robertson, sem staðfesti að hjá Bretum er komin stefnubreyting. Robertson sagði þá að Evrópa þyrfti á sérevrópskum varnarher að halda til þess að geta tekið á vandamálum í álfunni án íhlutunar Bandaríkjanna. Þetta olli að sjálfsögðu fögnuði meðal Breta því að þarna var um verulega þýðingarmikla stefnubreytingu varðandi framtíðarþróun Evrópusambandsins í öryggisefnum að ræða.

Sama dag og Robertson flutti þessa ræðu staðfesti Tony Blair, forsætisráðherra Breta, sama skilning og sama vilja. Hann lýsti því yfir að Bretland væri í fyrsta skipti reiðubúið til að samþykkja að ESB tæki að sér varnarhlutverk. Hugsun Breta er að sönnu sú, að aðgerðum slíks evrópsks varnarhers yrði stýrt af NATO en þó þannig að aðildarríki ESB legðu til heraflann og héldu yfirstjórn meðan á aðgerðunum stæði hvort heldur það væri í varnarskyni eins og það var orðað eða í árásarskyni. Blair sagði að sönnu að með þessari stefnubreytingu eða þessari stefnu væri ekki stefnt að því að kippa fótunum undan NATO en auðvitað dylst engum, eins og stjórnmálaskýrendur í Evrópu hafa bent á, að hér er um að ræða umtalsverða breytingu á utanríkisstefnu Breta. Hún felur í sér að á þessu sviði eru Bretar miklu hlynntari, örari og nánari samruna en áður. Þetta ber auðvitað að skoða í ljósi þess að ríki eins og Frakkar vilja draga úr vægi NATO og vilja skjóta formlegri varnarstoð undir Evrópusambandið og þeir hafa ekkert farið í launkofa með þá skoðun sína að Vestur-Evrópusambandinu er í framtíðinni hugað þetta hlutverk. Þetta tel ég, herra forseti, að kalli augljóslega fyrr en seinna á einhvers konar viðbrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Sú þróun sem þarna er hafin mun hvatast á næstu árum og hlutverk NATO og Bandaríkjanna þar með í öryggi Evrópu mun smám saman minnka og um leið dregur úr vægi þess sem hæstv. ráðherra kallar Atlantshafstengsl Evrópu. Hæstv. ráðherra benti raunar á það í ræðu sinni að í Bandaríkjunum væri sterkur þrýstingur á að lækka útgjöld til varnarmála og hann upplýsti að þau hefðu þegar á liðlega áratug dregist saman um 40%. Hann benti enn fremur á að varnarstöðin á Miðnesheiði hefði ekki farið varhluta af þeim niðurskurði. En mér finnst athyglisvert, herra forseti, að það er eins og þessi mikilvæga stefnubreyting eins aðalleikarans á sviði Evrópusambandsins, þ.e. Bretland, hafi farið fram hjá íslenskum stjórnvöldum. Í ræðu hæstv. ráðherra var ekki drepið einu orði á þessa nýju þróun í öryggismálum Evrópu sem mun augljóslega auka enn þrýstinginn á samdrátt herafla Bandaríkjamanna í Evrópu og þar með væntanlega í framtíðinni á Íslandi.

(Forseti (ÓE): Það er hálf mínúta eftir.)

Þess vegna spyr ég, herra forseti, á þeirri hálfu mínútu sem ég á eftir: Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við þessu? Hefur hún í hyggju að efna til viðræðna við samstarfsþjóðir okkar í NATO um þetta? Hefur hún í hyggju að efna til viðræðna við Bandaríkjamenn um þetta? Ég vil sérstaklega, herra forseti, rifja upp í þessu samhengi að í málefnaskrá samfylkingar A-flokkanna og Kvennalistans er einmitt tekið á því að nauðsynlegt sé að taka upp viðræður við Bandaríkjamenn. Þessi þróun sem hefur augljóslega farið fram hjá hæstv. utanrrh. staðfestir það að nauðsynlegt er að slíkar viðræður um framtíðina verði teknar upp. Það er alveg ljóst að núna eru að verða breytingar í Evrópu sem draga úr því sem hæstv. ráðherra hefur kallað Atlantshafstengsl okkar.