Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 11:29:43 (914)

1998-11-05 11:29:43# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[11:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það var afar athyglisvert að heyra hvernig hv. þm. Össur Skarphéðinsson þráspurði hæstv. utanrrh. um það hvort ekki væri í gangi vinna eða það þyrfti að vera í gangi vinna, athugun o.s.frv. á stöðu okkar og kostum gagnvart Evrópusambandinu. Þetta verkaði á mig allt saman eins og silkipappír utan um þá kunnu skoðun hv. þm. að við eigum að ganga í Evrópusambandið eða að stefna að aðild að Evrópusambandinu. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm.: Af hverju sagði hv. þm. það þá ekki beint en notaði þessa fjallabaksleið að lauma þessu inn í gildishlaðnar spurningar til hæstv. utanrrh. sem hljómuðu eins og gagnrýni á það að ríkisstjórnin væri ekki nógu dugleg við að skoða stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu?

Í beinu framhaldi og rökréttu samhengi við þetta kom umfjöllun hv. þm. um Vestur-Evrópusambandið og þá spurningu hvort við þyrftum ekki einnig að athuga það sem væri að gerast þar og taldi mikil tíðindi felast í breyttri afstöðu Breta. Þá er auðvitað komið að seinni spurningunni: Telur hv. þm. í samræmi við það að ég hef grun um að skoðun hans sé sú að við eigum að stefna að aðild að Evrópusambandinu að við eigum einnig að stefna að fullri aðild að VES, hernaðararmi Evrópusambandsins? Af hverju segir hv. þm. það þá ekki einnig berum orðum í staðinn fyrir að tala hér rósamál?

Loks er fróðlegt að spyrja, af því að hv. þm. sjálfur vitnaði í málefnaskrá A-flokkanna og Kvennalistans: Var hér flutt framsaga fyrir stefnu þeirra?