Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 11:34:54 (917)

1998-11-05 11:34:54# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[11:34]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. utanrrh. fyrir yfirgripsmikla ræðu sem tekur á öllum helstu þáttum utanríkismála Íslands. Það má raunar segja að það varpi nokkru ljósi á stöðu Íslendinga á alþjóðlegum vettvangi að tekin hefur verið ákvörðun um að stefna að framboði til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það er táknrænn atburður að þessi ákvörðun hefur verið tekin og staðfestir það sem löngu er kunnugt að hlustað er á rödd Íslands á alþjóðlegum vettvangi.

Það er litið svo á að Íslendingar hafi mjög margt fram að færa á alþjóðlegum vettvangi. Þeir vekja athygli á sviði umhverfismála, þeir eru taldir öðrum meiri sérfræðingar á sviði sjávarútvegsmála og taldir hafa náð þar meiri árangri en aðrar þjóðir. Þeir standa vörð um umhverfismál hafsins. Staða þeirra í varnar- og öryggismálum hefur löngum verið sterk, og að lokum er ekki hægt að neita því að síðasta áratuginn hefur sú efnahagsþróun sem hefur átt sér stað á Íslandi vakið töluverða athygli á erlendum vettvangi.

Undanfarið hafa orðið miklar sviptingar, alþjóðlegar sviptingar í efnahagsmálum sem hófust með hræringum í Austurlöndum fjær. Um tíma var óttast að slíkar sviptingar mundu valda hruni efnahagslífsins hjá mörgum þeirra ríkja sem höfðu verið talin, t.d. hér á landi, fordæmi öðrum þjóðum í efnahagsuppbyggingu. Minnist ég þess að vitnað var til þeirra hér á landi sem kraftaverkasvæða sem við gætum lært mikið af.

Nú hafa komið í ljós margvíslegir veikleikar í efnahagskerfi þessara þjóða. Engu að síður virðist heldur vera að rofa til nú síðustu vikur og það er óvíst hvort afleiðingar af þessari efnahagsþróun í Austurlöndum fjær verða eins alvarlegar og um tíma var haldið.

Það er táknrænt fyrir þá tíma sem við lifum nú að þróun efnahagsmála í fjarlægum heimshlutum hefur bein og óbein áhrif hér á landi, ekki síst í ljósi þess að við höfum byggt upp markaði bæði fyrir matvæli og aðrar framleiðsluvörur á nokkrum mikilvægum mörkuðum í Asíu. Umrótið í efnahagsmálum Asíu er okkur því mikið umhugsunarefni. Þetta umrót hefur sýnt fram á að alþjóðleg viðskipti í hinu svokallaða heimsþorpi lúta mun flóknari lögmálum en svo að sérfræðingar í efnahagsmálum hafi yfirsýn yfir þau. Það hefur komið í ljós í þessari þróun að ráðgjöf á sviði efnahagsmála, ráðgjöf til stjórnmálamanna á sviði efnahagsmála, stendur snöggt um veikari fótum en talið hefur verið.

Umrótið í Austurlöndum fjær hefur haft neikvæð á hrif á nálægari markaðssvæði þar sem Íslendingar hafa verið að vinna lönd. Það er ljóst að efnahagsupplausninni í Rússlandi er stundum lýst sem sérstöku, einangruðu fyrirbæri og þá bent á hve Rússland tekur lítinn þátt í alþjóðaviðskiptum. En umrótið í Asíu hefur haft bein áhrif á efnahagsmál og stjórnmál í Rússlandi. Grundvöllur tekna ríkisins í Rússlandi, sem var afar veikur fyrir, er sá að tekjur ríkisins berast frá átta af 89 ríkjum rússneska ríkjasambandsins, en af þessum átta eru a.m.k. sex sem hafa fyrst og fremst tekjur af olíu- og gasvinnslu. Umrótið í Asíu hefur haft mjög slæm áhrif á orkumarkaðinn og lækkað verð á orku og þannig veikt rússneskt efnahagslíf.

Þannig hefur upplausnin í efnahagsmálum Rússlands ekki bara haft áhrif þar innan þess víðfeðma ríkis heldur líka haft áhrif á grannríki þeirra. Þetta aftur á móti hefur haft nokkra verkan á það sem hér hefur orðið að miklu umræðuefni, m.a. hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, en það er útvíkkun Evrópusambandsins. Ég nefni sérstaklega í þessu sambandi Lettland. Mið- og Austur-Evrópuríkin skynja nú enn frekar en áður að þeir erfiðleikar sem upp hafa komið í Rússlandi geta ýtt undir þá viðleitni þessara ríkja að hraða aðild sinni að ESB til að tryggja áframhaldandi efnahagsbata.

Hins vegar er rétt að menn hafi það í huga að þessi þróun í Mið- og Austur-Evrópuríkjunum, sem má rekja að hluta til til efnahagsþróunarinnar í Rússlandi, mun hafa öfug áhrif á Evrópusambandið. Það er mjög líklegt og raunar er þegar farið að finna fyrir því að innan ESB verða viðbrögðin á annan veg. Þar huga menn nú þegar að því að styrkja innri stöðu sína, styrkja stöðu eigin ríkja innan Evrópusambandsins, og eru það bein viðbrögð við samdrætti í heimsviðskiptum. Það mun því leiða til þess að frekar er líklegt að hægja muni á útvíkkunarmálunum af hálfu þeirra ríkja sem nú þegar byggja Evrópusambandið.

Í raun hefur þessi afstaða nú þegar komið í ljós hjá nýjum valdhöfum í Þýskalandi. --- Má ég vekja athygli hæstv. forseta á því að ég sé ekki hvernig tíma mínum er háttað.

(Forseti (ÓE): Já, forseti mun gera ræðumanni viðvart þegar hálf mínúta er eftir.)

Það er stuttur frestur, hæstv. forseti, en ég mun sætta mig við það.

Reikna má með því að þessi þróun muni bitna á útvíkkun Evrópusambandsins og draga úr hraða þeirrar útvíkkunar.

Hér hefur því verið haldið fram að þessi þróun muni verða hraðari á næstunni en hingað til hefur verið. Ég tel margt benda til þess að svo muni ekki verða. Það má nefna sem dæmi að ný viðhorf hafa komið upp meðal ríkja Evrópusambandsins og þar á meðal vegna þeirrar þróunar sem hefur orðið í stjórnmálum Evrópu. Þar hafa komið upp sterkari öfl á vinstri vængnum sem hafa nú tekið við forustunni í fjölmörgum Evrópusambandsríkjum. Þessi ríki hafa ekki lagt eins mikla áherslu á efnahagsþróunina og það aðhald sem verið hefur í efnahagsmálum innan Evrópuríkjanna, ekki síst varðandi myntsamstarfið. Nýju áherslurnar innan Evrópusambandsins eru frekar á hin félagslegu mál og þá ekki síst á atvinnusköpun og baráttuna gegn atvinnuleysi.

Þessi stefnubreyting kemur til með að hafa áhrif á Evrópusambandið. Hún mun gera dýpkun Evrópusambandsins heldur viðameira verkefni og erfiðara og ekki verður auðveldara að ná samkomulagi um þá þróun og mun þar af leiðandi hægja á dýpkunarferli Evrópusambandsins. En sú þróun sem nú er fyrirsjáanleg mun líka hafa áhrif á útvíkkunarferlið og draga úr hraða þess. Þetta skynja nú þegar mörg af þeim ríkjum sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu og hefur þetta komið mjög skýrt fram í málflutningi Letta gagnvart Evrópusambandinu.

Einnig er ljóst að það er beinlínis eðli starfseminnar sem fram fer innan Evrópusambandsins að útvíkkunin sé þróun sem gengur hægt fyrir sig. Bæði snertir það skilmálana sem settir eru fyrir aðild. Þeir hafa í raun og veru ekki verið að veikjast eins og margir óttuðust. Þvert á móti hefur farið fram mjög hröð aðlögun innan núverandi aðildarríkja Evrópusambandsins að þeim skilmálum sem settir voru um efnahagssamvinnuna og EMU. Og ef eitthvað er sem vekur mikla athygli er það einmitt þessi hraða þróun aðildarríkjanna að þeim kröfum sem settar voru með efnahags- og myntsamstarfinu.

Skilmálarnir hafa því verið að styrkjast á undanförnum árum. Það mun einnig leiða til þess að heldur hægist á útvíkkunarpólitík Evrópusambandsins.

Ég held því að það sé á misskilningi byggt að einhver sérstök teikn séu á lofti um að útvíkkun Evrópusambandsins muni verða hraðað á næstu árum. Ég held það séu einmitt þvert á móti nokkur teikn um að sú þróun muni ganga hægt fyrir sig.

[11:45]

Ég held að staða Íslendinga við þessa þróun sé ekki slæm. Samkomulagið um Evrópska efnahagssvæðið hefur í raun reynst okkur vel. Það var skynsamleg leið sem við völdum þar. Sú staða okkar versnar ekki svo að orð sé á gerandi við þá þróun sem nú á sér stað í Evrópusambandinu. Það er að vísu rétt sem kom fram áðan að aukin völd Evrópuþingsins þrengja heldur stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu. En við megum heldur ekki gleyma því að útvíkkunin sem verður, þó að hægja muni á þeirri þróun á næstu árum, er einnig til þess fallin að skapa okkur möguleika miklu frekar heldur en að skapa okkur erfiðleika og við eigum að líta á útvíkkun Evrópusambandsins sem hagstæða þróun fyrir okkur, bæði fyrir Evrópu í heild en einnig fyrir okkur sem þjóð.

Við skulum samt sem áður ekki mikla fyrir okkur þann hag sem við höfum haft af Evrópska efnahagssvæðinu. Þróunin hefur raunar verið sú að frá 1992--1997 hefur útflutningur Íslendinga til Evrópusambandsins aukist talsvert, raunar um 30% á þessu tímabili sem er um talsverð aukning, en á sama tíma hefur innflutningur frá Evrópusambandinu vaxið um 60% þannig að það er ljóst að það er kannski frekar Evrópusambandið sem hefur haft viðskiptalegan hagnað hingað til af því að þetta samkomulag var gert. Ástæðurnar fyrir þessu eru að vísu flóknar og engan veginn slíkar að hægt sé að kenna samkomulaginu um Evrópska efnahagssvæðið um þessa þróun. Þar hafa áhrif t.d. gengisþróun dollarsins og jensins. En þetta segir okkur nokkuð um það að ekki er hægt með gildum rökum að fara þess á leit við Íslendinga að þeir greiði áfram verð fyrir þennan samning eins og raunar má segja að Spánverjar hafi nú gert að sínum málflutningi. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að draga lærdóm af þeirri þróun sem hefur orðið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, draga lærdóm af þróuninni innan ESB og lærdómurinn er þessi: Við þurfum að standa vörð um hagsmuni okkar á sem flestum markaðssvæðum í heiminum og ekki líta á stækkun Evrópusambandsins sem ógnun við okkur heldur þvert á móti sem möguleika. Þó að nokkurt bakslag hafi komið, eins og ég nefndi áðan, í þróun viðskiptatengsla okkar á nýjum markaðssvæðum bæði í Asíu og í Rússlandi, þá er alveg öruggt mál að það á að vera meginatriði fyrir okkur að leggja áfram rækt við þessa markaði. Við þurfum að dreifa viðskiptahagsmunum okkar sem mest og styrkja stöðu okkar á sem flestum mörkuðum.

Ástæða er til þess að fagna sérstaklega í sambandi við þetta því framtaki EFTA-þjóðanna að vinna að því að koma á fríverslunarsamningi við Kanada en undir formennsku Íslands í EFTA naut það mál forgangs á fyrri hluta þessa árs. Má í raun fullyrða að sú áhersla á viðskiptamál sem hæstv. utanrrh. hefur lagt í störfum sínum hafi nú þegar orðið til þess að styrkja ráðuneytið og það starf sem utanríkisþjónustan sinnir til að efla útflutningsstarfsemi og á þetta örugglega eftir að koma enn betur í ljós á komandi árum. Ég hygg satt best að segja að þegar til lengri tíma er litið muni menn minnast þessa framtaks hæstv. utanrrh. sem eins mikilvægasta framlagsins til íslenskra utanríkismála og íslenskra viðskiptamála.

Hér hefur verið rætt um umhverfismál og málefni hafsins sem eitt af þeim mikilvægu grundvallarmálum sem Íslendingar glíma við á vettvangi utanríkismála. Því ber að fagna hversu mikil áhersla er lögð á þetta í ræðu utanrrh. og okkur þingmönnum ber, bæði á þessum vettvangi og alls staðar annars staðar, ekki síst alþjóðlegum vettvangi, að styrkja þessa viðleitni hæstv. utanrrh. því að hér er um afar mikilvægt málefni að ræða.

Rétt er að geta þess að innan umhverfismálanna eigum við að gerast talsmenn umhverfismála og verndunar hafsins en umhverfismál hafsins hafa í raun og veru mjög lítil mörk. Mestöll mengun berst fyrr eða síðar til hafsins og rétt er að minna á það hér og nú að meginuppspretta mengunar hafsins eru landstöðvar. Á þessu ári hefur verið mikil umfjöllun á alþjóðlegum vettvangi um þennan málaflokk og okkur Íslendingum hefur gefist tækifæri til að beina athyglinni að umhverfismálum hafsins. Þar þurfum við að halda vel á málum til að halda til haga því grundvallarsjónarmiði að treysta beri sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins. Það sjónarmið á hins vegar undir högg að sækja á ýmsum vettvangi og er ástæða til þess að við Íslendingar leggjum okkur fram við að koma sjónarmiðum okkar á framfæri sem víðast og á áberandi hátt.