Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 11:50:36 (918)

1998-11-05 11:50:36# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[11:50]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessa skýrslu og sömuleiðis það að á undanförnum árum höfum við tekið upp þann sið að taka utanríkismál til almennrar umræðu í þinginu tvisvar sinnum á hverjum vetri, bæði að hausti og vori og það er gott að standa þannig að málum. Þetta hefur orðið til þess að meiri samfella er í umræðunni hér en ella væri og ég tel ástæðu til þess að lýsa því yfir að ég held að þetta sé fyrirkomulag sem menn eiga að halda áfram í þessari stofnun.

Ég vil líka segja að ég tel að ræða hæstv. utanrrh. sé ágæt undirstaða að umræðunni hér eins og hún liggur fyrir því að þar er drepið á mjög marga þætti sem ástæða er til að fjalla um og spurning hvort mönnum nægir sá tími sem hér er skammtaður til þess að fara almennt yfir hlutina og þess vegna verða menn meira en ella væri og kannski meira en góðu hófi gegnir að staðnæmast við einstök atriði frekar en almenn grundvallaratriði sem væri þó full ástæða til að ræða.

Ég vil fyrst, herra forseti, víkja aðeins að því sem rætt hefur verið núna í síðustu ræðum af hálfu hv. þm. Tómasar Inga Olrichs og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um Evrópusambandið. Það er augljóst mál að Evrópusambandið er núna að vinna í mjög mikilvægum, erfiðum og mjög flóknum verkefnum frá sjónarmiði Evrópusambandsins. Burt séð frá því hvaða skoðun við höfum á því þá er veruleikinn sá að þar eru menn að fjalla um málefni sem munu bersýnilega taka mjög mikinn tíma. Í þeim efnum er hægt að nefna t.d. mál eins og myntina og hvernig með þá hluti verður farið og hinn evrópska seðlabanka og hver staða hans verður gagnvart hinum seðlabönkum þjóðanna og það er greinilegt að þar er þegar orðin veruleg spenna á milli, m.a. eftir yfirlýsingar Lafontaines og fleiri um nauðsyn vaxtalækkana sem forráðamenn evrópska seðlabankans hafa þegar mótmælt. Í fyrsta lagi er því bersýnilegt að Evrópusambandið mun eiga fullt í fangi með þetta mál. Í öðru lagi mun Evrópusambandið eiga fullt í fangi með að fara yfir það sem kallað er Dagskrá 2000, þ.e. verulegar breytingar á innri markaðnum og það sem kallað er á tæknimáli þarlendra að dýpka þann markað, innri markað Evrópusvæðisins, meira en þegar hefur verið gert. Í því sambandi hefur verið bent á ótal dæmi sem mundu hafa það í för með sér að þessi markaður yrði mun virkari en hann er núna og þar af leiðandi er augljóst mál að þar er mikið verk að vinna og miklar hindranir eru í veginum sem verður sums staðar mjög erfitt að yfirstíga.

Í þriðja lagi er náttúrlega ljóst að stækkunarferlið hefur það í för með sér að menn eru að tala um að breyta í grundvallaratriðum öllu stjórnkerfi Evrópusambandsins og það er ekkert smámál. Það er alveg greinilegt, t.d. af þeim viðtölum sem við fulltrúar utanrmn. áttum við ýmsa talsmenn Evrópusambandsins undir forustu hv. þm. Tómasar Inga Olrich núna á dögunum að menn líta þannig á að stækkunarferlið, sem nú er um að ræða og menn standa í, muni taka þó nokkurn tíma og það verði flókið. Ég held að málið liggi þannig að næsta stækkunarskref eftir þá stækkunarhrinu sem núna er verið að undirbúa verði ekki stigið fyrr en eftir 2006 eða 2007. Með öðrum orðum eftir annað kjörtímabil héðan í frá, talið í kjörtímabilum í okkar landi, þannig að auk þessa verður það svo líka á dagskrá á þessum næstu kjörtímabilum að Evrópusambandið mun í vaxandi mæli ganga fram sem stórveldi. Evrópusambandið er t.d. á alþjóðavettvangi farið að haga sér eins og stórveldi mjög víða. Það er að sumu leyti flóknara fyrir okkur að fylgja slíku stórveldi en nokkru öðru því að Evrópusambandið tekur í þessum efnum fyrst og fremst mið af viðskiptahagsmunum og engu öðru sem alls ekki er víst að fari saman við þá hagsmuni sem við t.d. mundum hafa í þessum efnum.

Ég held að það sé nauðsynlegt líka að gera sér grein fyrir því að þessum viðskiptahagsmunum gæti Evrópusambandið viljað fylgja eftir með hernaðarlegum styrk og sérfræðingar í málefnum Evrópusambandsins og Evrópu spá því að eftir eitt eða tvö kjörtímabil héðan í frá, ef við horfum á stöðuna út frá okkur, muni menn gera kröfu um það í vaxandi mæli að Evrópusambandið hafi hernaðarlegan styrk til að fylgja pólitík sinni eftir þar sem það á við að mati Evrópusambandsins.

Og hvað er að gerast einmitt núna um þessar mundir? Var það ekki bara í gær eða var það í fyrradag að varnarmálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna komu saman til sérstaks fundar til að fjalla um stöðu sína? Meðal annars eftir kosningarnar í Þýskalandi eru menn að endurmeta hlutina og þessir fundir eru bersýnilega haldnir, næstum að segja, í andstöðu við utanríkismálaráðherrana sem vilja leggja aðrar áherslur í þessum löndum. Til dæmis er það þannig að utanríkismálaráðherra Dana, Niels Helveg Petersen hefur mótmælt þessum fundarhöldum alveg sérstaklega vegna þess að þar með sé verið að draga Evrópusambandið inn í hernaðarlega umgjörð sem er Dönum, eins og sakir standa, ekki að skapi. En eftir þau viðtöl t.d. sem við höfum átt undanfarna daga, þ.e. þeir þingmenn sem skoðuðu þessi mál pínulítið á vegum utanrmn. og bara af lestri blaða, er ég algerlega sannfærður um það, ef maður reynir að horfa eins og tíu ár fram í tímann, að Evrópusambandið mun setja það á dagskrá að vera með hernaðarlegan styrk. Það er engin spurning.

Spurningin fyrir okkur er þá sú í ljósi þessa og alls: Erum við þá nokkuð í vondri stöðu? Þurfa Íslendingar að hafa svo miklar áhyggjur af þessu og þurfum við alltaf að tala eins og við séum afgangsstærð og út undan í þessu Evrópumáli öllu saman? Ég hef sömu skoðanir á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og ég hafði þegar hann var gerður á sínum tíma. Ég tel að það hefði verið miklu betra fyrir Ísland að gera tvíhliða samning. En er veruleikinn sá þrátt fyrir þessa niðurstöðu núna að Íslendingar þurfi endilega, af því að þetta hafi verið svo vitlaus samningur sem meiri hluti Alþingis gerði, að sækjast eftir því að ganga í Evrópusambandið af því að menn geti ekkert annað, af því að annars verði menn afgangs í þessu ríki og verði kannski eftir 12 ár eða svo utan Evrópusambandsins, eitt Evrópuríkja fyrir utan náttúrlega Rússland og kannski Rúmeníu? Ég tel að málið liggi ekki svona. Ég tel að við eigum kannski ekki fyrst og fremst að leggja á það áherslu að skoða hvaða möguleika við fáum út úr því að vera aðili að Evrópusambandinu. Mér finnst að við eigum að skoða þá möguleika sem við höfum út frá þeirri stöðu sem við erum í núna. Við eigum að velta því fyrir okkur hvaða möguleika hún getur gefið okkur sérstaklega. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þeir möguleikar eru miklir og ég held að við eigum ekki að nálgast málin þannig að vægi Íslands sé að minnka. Það er ekki svo. Ég held að menn eigi að horfa á þessa hluti eins og þeir eru og miðað við allar aðstæður eigi menn ekki að setja sig í þær stellingar að við þurfum svo að segja að neyðast til þess að ganga í Evrópusambandið burt séð frá öllu öðru sem veldur svo því að það er engin ástæða til að ganga þar inn. Ég tel því að engin nauður reki Íslendinga til að skoða þessi mál sérstaklega.

Svo er líka hitt umhugsunarvert og það er að þarna eru á vettvangi vaxandi umræður um að efla þjóðríkin aftur. Það er verið að tala um að það verði að efla þjóðþingin gagnvart Evrópuþinginu aftur, að það sé nauðsynlegt ef menn ætli sér að ná utan um þessa þróun og það er býsna skemmtileg umræða sem væri fróðleg fyrir okkur að fara yfir í Alþingi Íslendinga, ekki síst í ljósi þess að menn voru svo að segja hér um tíma að afskrifa sjálfstæði þjóðríkjanna. En það er greinilegt að menn líta þannig á að ef það á að nást utan um þessa þróun á næstu árum og áratugum þá þurfi að halda í og jafnvel að styrkja sjálfstæði þjóðríkjanna inn í og andspænis þessum stóru bandalögum.

[12:00]

Ég vil nefna örfá atriði úr ræðu hæstv. utanrrh. og þá fyrst að snemma í ræðunni víkur hann að því sem kallað er aukið vægi alþjóðamála. Það er vitnað í að þjóðir heimsins hafi vaxandi aðgang að alnetinu. Þar þarf að fást við gríðarlega stórar spurningar. Við þurfum að velta því fyrir okkur hver fer með þau mál í Stjórnarráði Íslands. Eru það fagráðuneytin eða eru þetta utanríkisviðskiptamál, þau sem snúa að t.d. rafrænum viðskiptum og rafrænum boðum af öllu mögulegu tagi sem verða alger undirstaða allra samskipta í alþjóðamálum og utanríkismálum á næstu árum og áratugum?

Í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið og birtist á sunnudaginn var nefni ég fimm lykilspurningar í þessu efni: Hvernig á að tryggja markaðsaðgang allra með vörur og þjónustu á netinu? Hver hefur lögsögu á netinu, hvar endar lögsaga Íslands? Hvernig á að tryggja rétt neytenda á netinu? Hvað með höfundarrétt og firmaskráningu, staðfestingu undirskrifta og allt þetta? Hver í Stjórnarráði Íslands heldur utan um þetta? Þetta eru í raun utanríkismál sem skipta okkur mjög miklu máli. Ég vil beina þeirri spurningu í fyrsta lagi til hæstv. utanrrh.

Í öðru lagi, þar sem ég verð að fara hratt yfir sögu, ætla ég að víkja aðeins að vestnorræna samstarfinu og norðurskautssamstarfinu. Ég tel það skipta mjög miklu máli að við reynum að ná betur utan um þetta samstarf á heimskautssvæðunum en þegar hefur tekist. Það hefur verið erfitt m.a. vegna þess að Bandaríkjamenn hafa ekki fengist til að taka þátt í því sem skyldi, þ.e. samstarfsins á vegum Arctic Council. Ég veit að hæstv. utanrrh. er allmikill áhugamaður um þetta mál ef ekki frumkvöðull beinlínis. Ég vil beina því til hans að menn íhugi hvernig hægt sé að tryggja að þetta samstarf á norðurheimskautssvæðunum verði öflugra en það hefur verið til þessa. Það er alltaf að bæta dálitlu við sig en í rauninni er mjög flókið að taka á þessu samstarfi vegna þess að það er ekki nóg að þetta samstarf nái til ríkja eða ríkisstjórna. Það verður að ná sérstaklega til svæða eins og t.d. Grænlands, Norður-Rússlands, norðurhluta Kanada og þar fram eftir götunum.

Ég tel mikilvægt að nefna þetta hér, m.a. með hliðsjón af því að Ísland hefur forustu í norræna samstarfinu á næsta ári, ef ég man rétt. Ég vildi því gjarnan sjá þetta þannig fyrir mér tæknilega að við höfum á eina hliðina hið norræna samstarf, í framhaldi af því hið vestnorræna samstarf og í framhaldi af því samstarfið á heimskautssvæðunum. Ég vil gjarnan horfa á þetta sem eina samfellu. Ég tel að þarna sé fólk sem við eigum samleið með, bæði pólitískt, hagsmunalega, menningarlega, hvernig svo sem það er skoðað. Ég tel að það væri slæmt ef við yrðum á nokkurn hátt viðskila við þetta fólk, enda veit ég að það er enginn áhugi á slíku.

Í þriðja lagi ætla ég að nefna öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og rifja upp að það eru líklega 3--4 ár síðan ég spurði hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. um þetta mál. Þá lýsti ég miklum áhuga á því að þetta yrði, að Ísland sæktist eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ég vil lýsa því yfir að ég tel að þetta sé mjög mikilvægt atriði fyrir Ísland. Ég tel að þetta yrði upphefð fyrir Ísland og sjálfstæði þess að vera með þegar kemur að ákvarðanatöku innan öryggisráðsins. Ég tel að þetta væri afar jákvætt og mikilvægt og auðvitað ljóst að þetta mun kosta fjármuni eins og hér hefur komið fram, bæði undirbúningurinn og þátttakan. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og spurning hvernig menn ætla síðan að vinna að því í framhaldinu, að tryggja að við náum þessu sæti. Það er útfærsluverkefni sem mér finnst að aðili eins og utanrmn. ætti að koma að.

Það eru fjöldamörg fleiri atriði sem ég ætlaði að nefna. Ég ætlaði aðeins að koma inn á þennan alþjóðlega sakamáladómstól og fara yfir Evrópumálin frekar en ég kemst ekki yfir það. Ég ætla aðeins að víkja að því sem snertir sérstaklega Atlantshafsbandalagið og hersetuna. Ágreiningurinn sem menn hafa viljað halda fram að sé uppi um hvort breytingar séu að verða í utanríkismálum er minni en menn vilja vera láta. Ég tel að í ræðu hæstv. utanrrh. komi fram að hann sé sammála því að það eru að verða breytingar sem menn hljóta að taka á og koma til móts við. Ég bendi á það að lokum, herra forseti, að snemma á næsta ári er sérstakur fundur þar sem fjallað verður um endurskoðun á öryggismálastefnu Atlantshafsbandalagsins. Það er því greinilegt að þessir hlutir eru að breytast og þróast. Það snertir líka aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og hersetuna á Keflavíkurflugvelli.