Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 12:29:21 (923)

1998-11-05 12:29:21# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[12:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að útskýra hvað ég ætti við. Hann gerði það náttúrlega mjög furðulega og hélt því fram að ég vildi enga stjórn á nokkrum hlut, sem ég hef aldrei sagt. Hann mætti nú líta aðeins í eigin barm þegar hann er að tala um útúrsnúninga. Og maður vill þá náttúrlega frekar hlusta eitthvað á það hvers konar viðskiptaumhverfi hann vill lifa í, sem ég botna ekkert í, en hann er að halda því fram, eins og ég skil hann, að frjáls viðskipti séu af hinu vonda.

[12:30]

Eru frjáls viðskipti af hinu vonda fyrir Íslendinga? Á ég að halda því fram á alþjóðavettvangi að Íslendingar vilji afturhvarf í þeim efnum? Er það það sem hv. þm. vill að ég segi á alþjóðavettvangi? Ég sagði á þessum vettvangi ég teldi frjáls viðskipti lífshagsmunamál Íslendinga og ég er þeirrar skoðunar og þess vegna fyndist mér fróðlegt að heyra hver er skoðun hv. þm. á frjálsum viðskiptum.

Frjálst fjármagnsflæði er líka mjög mikilvægt en þar eru vissulega mörg vandamál uppi. Það er rétt hjá hv. þm. að frjálst fjármagnsflæði hefur stundum farið illa með ýmsar þjóðir, ekki síst í Asíu þegar bröskurunum tekst að spila á þetta kerfi og menn verða að koma þar við vörnum. Það eru menn að reyna að gera í hinu alþjóðlega samfélagi. En að hverfa algerlega frá frjálsu fjármagnsflæði dettur ekki nokkrum manni í hug sem er að vinna að þessu. En menn telja að það þurfi að bæta þessi kerfi og koma á betri stjórn.

Um þátttöku Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í uppbyggingunni í Rússlandi er náttúrlega alveg ljóst að það skiptir sköpum hvernig þar tekst til. Þetta eru þau tæki sem við erum að reyna að beita til hjálpar þróunarríkjum, til hjálpar þeim ríkjum sem eru að reyna að taka upp markaðsbúskap og þau eru sannfærð um að það muni leiða til góðs, þar á meðal þróunarríkin. Þau vilja auðvitað vera með í heimsbúskapnum.