Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 12:31:47 (924)

1998-11-05 12:31:47# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[12:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekkert af því tagi sem gefur tilefni til fyrir hæstv. utanrrh. að leggja mér þau orð í munn að ég sé algerlega á móti frjálsum viðskiptum. Það sem ég gerði, hæstv. forseti, var að ég vitnaði beint í orð hæstv. utanrrh., (Gripið fram í.) í ræðu hans bæði hér og aðrar ræður sem hæstv. ráðherra hefur flutt sem utanrrh. Íslands á opinberum vettvangi. Ég vitnaði t.d. í ræðu hans á fundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins á dögunum. Þar segir hæstv. ráðherra:

,,The case for free trade remains an overwhelmingly strong one. Despite the temptation succumbed by too many politicians to seek shelter from competition by putting up new barriers against free trade, foreign investment or free flows of capital.``

Þarna varar hæstv. ráðherra við að láta undan nokkrum freistingum varðandi þetta mál. Það var þessi blinda trú á hinn óhefta markað og algerlega frjálsar fjármagnshreyfingar sem ég varaði við og sem ég er ekki sammála. Það dugar ekki fyrir hæstv. ráðherra að bregðast þannig við þegar vitnað er orðrétt í ræður hans og lagt út frá því að koma hér með einhverjar klæðaskápalíkingar. Það er ekki málefnalegt, það er ekki uppbyggilegt. Hæstv. ráðherra verður að gera upp við sig hvort hann er þessi markaðshyggjumaður sem ástæða er til að ætla þegar maður les þessa texta eða er hann eitthvað annað og útskýra þá hvað í því felst. Ég er viss um að enginn annar utanríkisráðherra á Norðurlöndunum hefði jafnfyrirvafalaust sett þessa hluti svona fram. Sænskir utanríkisráðherrar a.m.k. mundu samkvæmt hefðinni þar minna á að jafnframt þarf að hafa reglur sem tryggja að félagslegt réttlæti, jöfnuður í lífskjörum og nú á síðari tímum umhverfismálin séu einnig höfð með í ráðum. Það er þessi gagnrýnislausa framsetning og blinda trú sem ég vara við.

Ég bið hæstv. ráðherra að taka þessu sem velviljuðum ábendingum og ég mælist til þess að hæstv. ráðherra fari yfir það með sjálfum sér (Utanrrh.: Þetta er bara útúrsnúningur.) hvort það er ekki þannig að við Íslendingar viljum jafnframt að félagsleg sjónarmið, að umhverfissjónarmið og annað því um líkt, sé haft í huga þegar þessar leikreglur eru settar í heiminum. Ég get verið stuðningsmaður þess að Alþjóðaviðskiptastofnunin setji um þetta almennar leikreglur enda hafi hún þetta í huga sem ég hef hér nefnt.