Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 12:36:36 (926)

1998-11-05 12:36:36# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[12:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er algerlega ósammála hv. þm. Ég tel að í fyrsta lagi hefðu ýmsar aðrar leiðir verið færar til þess að varðveita norræna vegabréfasambandið og reyndar má spyrja hv. þm., sem fer iðulega til útlanda, hversu oft hv. þm. hefur farið til útlanda og þó til Norðurlandanna sé án þess að hafa með sér vegabréf og hvaða óskapleg vandræði það skapi. Ég verð að segja alveg eins og er að það er oftar en ekki sem maður sýnir þetta vegabréf hvort sem er og mér finnst ekkert óskaplegt mál að taka það upp úr vasanum.

Um önnur réttarfarsleg atriði sem þessu tengjast hefði að sjálfsögðu mátt semja. Upphaflega var sagt að Norðurlöndin mundu fylgjast að og Norðurlöndin mundu varðveita norræna vegabréfasambandið. Við lögðum þá í það þann skilning að það þýddi að niðurstaðan gæti alveg eins orðið sú að þau yrðu öll fyrir utan eins og fyrir innan. Það var í ferlinu sjálfu sem þetta fór smátt og smátt að breytast og menn fóru að segja: Ja, við munum sjá um að þetta byggi á því að við finnum viðunandi lausn og þannig var þetta þróað yfir í það að að lokum voru Íslendingar og Norðmenn vissulega komnir í þá stöðu að þeir yrðu að rífa sig lausa þegar ljóst var að hin ríkin stefndu inn í ekki bara Evrópusambandið heldur líka Schengen.

Staða Noregs er auðvitað allt önnur en Íslands. Noregur hefur gífurlega löng landamæri sameiginleg við Evrópusambandslandið Svíþjóð. Ísland hefur alla aðstöðu til þess að gera það sem því sýnist í þessum efnum og ég gef mjög lítið fyrir að það yrði stórkostleg hindrun og mundi fæla ferðamenn frá Íslandi sem þurfa upp í flugvél og fljúga í nokkra klukkutíma yfir úthafið þó að þeir þyrftu að hafa með sér vegabréf. Ætli þeir mundu ekki hafa það hvort sem er til að geta skipt ferðatékkunum sínum o.s.frv. Við getum að sjálfsögðu samið um að ekki þurfi neina áritun. Þannig að allt er þetta heldur léttvægt finnst mér borið saman við hin rökin sem eru mjög þung að erfitt er fyrir ríki sem eru utan Evrópusambandsins að vera þátttakendur í hlutum sem búið er að innlima inn í Evrópuréttinn, búið að gera að hluta að Evrópusamningunum og jafnvel að hluta til taka inn í fyrstu stoð með yfirþjóðlegu valdi og ákvörðunum enda sjá mjög mörg Evrópusambandsríki þetta sem mjög mikinn hausverk og mikið vandamál að vera að draslast með Ísland og Noreg í þessu samhengi. Ég dreg alveg gagnstæða ályktun á við hv. þm. Ég óttast að þetta mundi auka þrýstinginn á að við förum inn en ekki minnka hann.