Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 14:02:24 (936)

1998-11-05 14:02:24# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[14:02]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að þeim samningi sem hér hefur verið gerður að umtalsefni, þ.e. fjölþjóðlega fjárfestingarsáttmálanum MAI, hefur verið unnið í mjög langan tíma og íslenska utanrrn. og viðskrn. jafnframt hafa komið að gerð hans. Við höfum haft allmikil áhrif á hann eða samningsgerðina og í vor sat ég ráðherrafund OECD þar sem þessi samningur var til umræðu og ákveðið var að fresta viðræðum til haustins. Síðan var haldinn samningafundur nú í október þar sem Frakkar sögðu sig úr viðræðunum eins og kom fram hjá hv. þm.

Þeir höfðu ýmsar athugasemdir fram að færa í sambandi við þennan hugsanlega samning. Þeir töldu að ákvæðin um lausn deilumála væri ekki nægilega góð, að þróunarlöndin hefðu ekki nægilega mikla möguleika til þess að koma að þessum samningi og að þar væri ekki fjallað nægilega um réttindi launafólks og umhverfismál, en umhverfismál höfðu verið eitt af þeim deiluefnum sem voru uppi á borðinu og höfðu ekki fengið neina lausn.

Það er frekar búist við því að framtíð þessara viðræðna verði á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þannig að þær færist frá OECD yfir til WTO. Ég skal ekkert fullyrða um það en vil hins vegar benda á þá staðreynd að mikil þörf er á því að koma upp slíkum samningi. Smáar þjóðir eins og við Íslendingar erum þurfa oft að gera samninga af þessu tagi og þá gerum við þá tvíhliða en við höfum verið að reyna að koma okkur hjá því vegna þess að við höfum vonast til þess að þarna gæti fengist niðurstaða. En ekki verður komist hjá því að fjárfestingarsamningar verði í gangi milli þjóða því það þarf að skapa meira öryggi í fjárfestingum og gagnkvæmar fjárfestingar ríkja eru nú eitt aðalhreyfiaflið í efnahagslífi heimsins.