Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 14:06:11 (938)

1998-11-05 14:06:11# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[14:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessi mál hafa komið til umræðu á hv. Alþingi. Þau hafa líka verið til umræðu í utanrmn. Að sjálfsögðu er ekkert því til fyrirstöðu að taka þau til frekari umræðu í nefndinni og ekkert nema eðlilegt við það.

Ég er þeirrar skoðunar að sú mynd sem hv. þm. teiknaði upp um samninginn hafi verið nokkuð dökk og ég held að þeir sem skrifuðu þær greinar sem hann lýsti hafi verið afar mikið á móti samningnum og ekki séð margar jákvæðar hliðar á honum. En það er eins og gengur í öllum stórum alþjóðlegum samningum, að það eru bæði neikvæðar hliðar og jákvæðar. Menn taka á sig ákveðnar skuldbindingar en ná jafnframt verulegum árangri. Menn verða að vega og meta hvort það er þess virði að taka á sig slíkar skuldbindingar til þess að greiða betur fyrir vextinum í heimsviðskiptum og hagvexti í heiminum almennt. Við verðum að sjálfsögðu að gæta þess að fátæku þjóðirnar eigi þar eðlilega aðild að. En ef við viljum berjast gegn fátækt í heiminum og meiri hagvexti þá er ég ekki í nokkrum vafa um að meiri fjárfestingar og meiri umsvif, sem skapa atvinnu fyrir fólkið, eru eitt af lykilatriðunum í þeirri baráttu. Ég held að það verði líka að sjá þennan samning í því ljósi.