Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 14:45:52 (946)

1998-11-05 14:45:52# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[14:45]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Í raun og veru er grundvöllur þeirrar gagnrýni sem hér hefur komið fram á stefnumörkun samfylkingarinnar ekki annar en sá sem blasir við ef menn lesa textann eins og hann liggur fyrir. Þeir ágætir þingmenn Alþfl. sem hafa reynt að réttlæta þetta plagg hafa lagst í það að vera með miklar lestraræfingar og túlkunaræfingar um hvernig eigi að lesa texta sem í raun talar (Gripið fram í.) þó sínu eigin máli því að hér stendur, eins og margsinnis hefur verið bent á, að það þurfi að gera sérstakar hliðarráðstafanir vegna brottfarar varnarliðsins og ekki verður það lesið öðruvísi en í samhengi við þá meginstefnu að Ísland geti staðið utan hernaðarbandalaga eins og hér stendur. Það er ómögulegt að lesa þetta plagg öðruvísi en svo að Alþfl. sé nú í fyrsta skipti að marka sér þá stefnu að hann vilji ganga úr Atlantshafsbandalaginu, að það sé langtímamarkmið hans að ganga úr bandalaginu á sama tíma og lýðræðisþjóðir Evrópu eru að setja sér fyrir það verkefni að styrkja þetta varnarbandalag. Á sama tíma og trú þeirra hefur aukist á þessu bandalagi þá setur Alþfl. upp merki um að hann vilji draga sig út úr þessu, það sé langtímamarkmiðið, og hefur þar af leiðandi myndað sér samstöðu með Alþb. í þessu máli.