Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 15:04:25 (949)

1998-11-05 15:04:25# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[15:04]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Alþfl. og væntanlegir samstarfsaðilar hans vilja eins og væntanlega aðrir flokkar tryggja öryggi þjóðarinnar. Hvers konar spurningar eru þetta. Það kemur fram hjá þessari samfylkingu að eins og sakir standa á næstu fjórum árum, sem er tímamsetning þessa samkomulags, þá telja menn fyrirsjáanlegt að það verði best tryggt með aðild að NATO þannig að um það þarf ekkert að ræða. Síðan er sjálfstæð setning þar sem segir að framtíðarsýnin, sem ég hygg að allir friðelskandi menn hljóti að vera sammála um, sé sú að Ísland sem og öllur lönd geti geti verið í þessum stóra heimi okkar án þess að hernaðarbandalög þurfi að koma til. Það er kjarni málsins. Ég árétta enn og aftur og gagnspyr: Er það sérstakt markmið hjá hv. þm. að Ísland sé innan hernaðarbandalaga um aldur og ævi? Er það draumur hans í lífinu að þannig verði umhorfs í veröld okkar að öll þjóðríki lítil og stór þurfi að vera í hernaðarbandalögum? Sér hann enga aðra framtíðarsýn í heimshluta okkar og í veröldinni allri en að hún þurfi að standa grá fyrir járnum? Ég hef aðra framtíðarsýn en þá. Það getur vel verið að hún sé óraunsæ og óraunhæf og þá verður það bara að koma á daginn. En ég vona svo sannarlega að veröld okkar geti litið þannig út í framtíðinni að við þurfum ekki að byggja öryggi okkar á fælni, kjarnorkuvopnum og vígbúnaðartólum heldur komi til gagnkvæmur skilningur, orðræður og umburðarlyndi þess í stað. Það er framtíðarsýn mín. Hún er kannski allt önnur en hv. þm. Ég veit ekki um það.