Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 15:11:25 (953)

1998-11-05 15:11:25# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[15:11]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat um það áðan að verulegar breytingar hafa orðið á starfsemi NATO á allra síðustu árum, einkum og sér í lagi eftir að Varsjárbandalagið gufaði upp sem hefur gert það að verkum að ákveðin starfsemi NATO hefur tekið gjörbreytingum, áherslan er minni nú á þá gagnkvæmu fælni sem birtist í kjarnorkuvígbúnaði og kjarnorkuuppbyggingu. En það breytir því ekki að eftir sem áður eru ákveðnir þættir í starfsemi NATO grundvallaðar á því hinu sama þannig að að því leytinu til er NATO auðvitað hernaðarbandalag, en þó í minnkandi mæli því að enn frekar hefur áherslan verið lögð á aðra þætti sem ég gat um áðan.

Virðulegi forseti. Ég hélt að það þyrfti ekki að árétta þetta enn frekar. Samfylkingin hefur orðið ásatt um það, Alþfl., Alþb. og Kvennalisti, að Ísland verði áfram aðili að NATO til þess tíma sem þetta samkomulag tekur til. Meira er ekki um það að segja. Það eru ekki neinar ákvarðanir um það að eftir þann tíma verði síðan gengið úr NATO. Það er bara verið að snúa hlutum á hvolf þannig að engin stefnubreyting hefur orðið af hálfu Alþfl. í þessum efnum. Það er alveg skýrt. Það hefur heldur ekki orðið, svo að ég endurtaki það líka, nein stefnubreyting hvað varðar stefnu flokksins gagnvart Keflavíkurflugvelli heldur er fyrst og síðast áréttuð og undirstrikuð nauðsyn þess að íslensk yfirvöld gangi til viðræðna um framtíðarskipan mála suður á velli. Hæstv. utanrrh. hefur þegar hafið þessar viðræður. Ég óskaði eftir því áðan að hann svaraði í hverju þær væru fólgnar, á hvaða stigi þær væru, og ég óska eftir því að þau svör komi.

Ég segi það enn og aftur, virðulegi forseti, að ég á þá draumsýn, og ég vona að hæstv. utanrrh. deili henni með mér, að við sjáum veröld þar sem ekki verður þörf fyrir gereyðingarvopn og gagnkvæma fælni byggða á herveldum gráum fyrir járnum.