Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 15:17:45 (956)

1998-11-05 15:17:45# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[15:17]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ef ég man rétt þá hefur Alþfl. á undanförnum 40 árum farið með stjórn utanríkismála í 22 ár eða meira en helming þess tíma og hefur öðrum fremur mótað þá utanríkisstefnu sem Ísland hefur fylgt á þeim tíma. Þar á meðal er samstarfið innan NATO og um varnarsamninginn. Á þeim tíma höfum við átt bandamenn í Framsfl. en við höfum líka átt andstæðinga í Framsfl. sem hafa verið á öðru máli. Einn þeirra situr í hæstv. ríkisstjórn nú, hæstv. félmrh. Hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. ætti í þessari umræðu að muna að þar hafa verið innan borðs fram undir þetta áhrifamiklir einstaklingar sem hvað eftir annað hafa tjáð sig um utanríkismál á Alþingi, í andstöðu við þá stefnu sem fylgt hefur verið sl. 40 ár.

Annars ætlaði ég, herra forseti, að þakka utanrrh. fyrir þessa skýrslu eins og aðrir hafa gert og láta í ljós leiða minn yfir því hversu takmarkaður umræðutíminn er. Raunar er ekki hægt að fara yfir þennan yfirgripsmikla málaflokk nema á hundavaði eða þá að velja úr örfá atriði eins og menn hafa neyðst til að gera. Ég ætla þó að nota þetta tækifæri til þess að færa starfsmönnum utanrrn. sérstakar þakkir. Við höfum ekki fjölmennt starfslið í utanrrn., erum með litla utanríkisþjónustu. En engu að síður hefur okkur á undanförnum árum tekist að axla stór verkefni svo sem að hafa á sínum tíma forustu fyrir EFTA-ríkjunum við gerð samningsins um EES. Með miklu fámennara starfsliði höfum við getað leyst slík verkefndi eins vel af hendi og jafnvel betur en margar aðrar þjóðir. Mér finnst starfsfólk utanrrn. eiga það skilið að við það sé virt, í umræðum um utanríkismál, hve vel það hefur staðið sig.

Nú eru, eins og hæstv. utanrrh. sagði, ýmis mjög mikilvæg verkefni fram undan, formennska í Evrópuráðinu á 50 ára afmæli þess, forusta í ráðherrasamstarfi Norðurlanda meðan reynt er að fá Evrópusambandið til þess að líta sérstaklega til hinnar norrænu víddar, aukið starf á vegum og í tengslum við ÖSE og hugsanlegur möguleiki á því að Ísland öðlist aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Allt eru þetta mikilvæg verkefni ásamt mörgum öðrum sem hæstv. utanrrh. minntist á. Ný verkefni og mjög mikil vinna flyst yfir á starfsfólk utanrrn. og ég er ekki í nokkrum vafa um að það mun rísa eins vel undir þeim og hingað til í fjölþjóðlegu samstarfi á undanförnum árum til jafns við miklu stærri og sterkari þjóðir. Ég vil aðeins láta það koma fram að þessu er veitt athygli á Alþingi og alþingismenn kunna starfsmönnum utanrrn. þakkir fyrir þeirra störf.

Í sambandi við hugsanlega öryggisráðsaðild Íslendinga vil ég spyrja hæstv. utanrrh. hvort ekki séu líkur á því að Evrópubandalagið muni marka sína eigin stefnu í þeim málum. Menn rekast mjög á það á fjölþjóðavettvangi að þegar hagsmunir norrænu þjóðanna utan Evrópusambandsins takast á við hagsmuni Evrópusambandsþjóðanna þá mótar Evrópusambandið oftar en ekki sína eigin stefnu í þeim málum. Norðurlandaþjóðirnar innan Evrópusambandsins neyðast þá til að fylgja þeirri stefnu fremur en horfa til norrænna nágranna sinna sem utan standa. Ég vildi spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort líkur séu á því að Evrópusambandið kunni að taka upp einhverja ákveðna stefnu varðandi þá aðila sem hugsanlega fengju sæti í öryggisráðinu á næstu árum og sú sameiginlega stefna gæti kannski orðið til þess að minnka möguleika okkar á að njóta þar stuðnings.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því að Íslendingar og Norðmenn geta ekki tekið nema takmarkaðan þátt í því svæðasamstarfi sem á sér stað innan ESB. Hins vegar er það á allra vitorði að Norðmenn, sem ekki gengu inn í samstarf Evrópuríkjanna á sínum tíma eftir atkvæðagreiðsluna, hafa reynt að komast til áhrifa innan Evrópusambandsins í gegnum bakdyrnar og með ýmsum öðrum aðferðum. Þeir reyna það sjálfsagt í kringum þetta svæðasamstarf en ég vek athygli á því að möguleikar okkar Íslendinga til þess að taka þátt í svæðasamstarfi norrænna ríkja innan Evrópusambands eru takmarkaðir. Við komumst ekki um þær bakdyr til áhrifa í Evrópusambandinu fremur en Norðmenn.

Þá vil ég einnig lýsa yfir sérstakri ánægju minni með þá stefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur markað í sambandi við móttöku flóttamanna. Mér finnst full ástæða til þess að vekja athygli á því sem vel er gert og þar hefur hæstv. ríkisstjórn gert ágæta hluti og hyggst halda því áfram. Ég styð þær aðgerðir hennar.

Þá langar mig til að spyrja hæstv. utanrrh. í tilefni af því sem hann segir hér um deilurnar við Spánverja, þ.e. eftir að hann ræðir um að sjóðurinn sem samið var um í EES-samningnum sé á lokahnykk, þar sem hann segir síðan, með leyfi forseta: ,,Slíkir sjóðir eiga ekki að vera eilífir.`` En síðan segir hæstv. utanrrh. orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ég tel ekkert því til fyrirstöðu að við athugum hvort við getum eflt samstarf við þau ríki sem hér um ræðir, Spán, Portúgal, Grikkland og Írland, telji þessi ríki að þau beri skarðan hlut frá borði í viðskiptum við okkur.``

Ég spyr hæstv. utanrrh. hvernig beri að skilja þessi orð. Er þetta tilboð um að Íslendingar séu reiðubúnir til að leysa deiluna við Spánverja og verja einhverju fjármagni umfram það sem við höfum þegar gert til stuðnings við þau ríki sem þar eru talin upp, hvort sem það verður gert með sama hætti og gert hefur verið sl. fimm ár eða ekki? Ef ég man rétt þá hafa Íslendingar greitt um 100 millj. kr. til þessa sjóðs á ári á undanförnum árum. Ég hefði áhuga á því að vita hvort hæstv. utanrrh. sé með þessu að senda frá sér skilaboð um að Ísland sé tilbúið til að halda slíkum greiðslum áfram í einhverju formi, til sátta í þeirri deilu sem upp er risin.

Herra forseti. Hið allra merkilegasta við þessa ræðu er kannski það sem ekki er sagt í henni. Ekkert er látið uppi um framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar, hvernig hún hyggist bregðast við þeirri þróun sem á sér stað í Evrópu. Nú vitum við að hæstv. ríkisstjórn hefur einsett sér að aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá. Í tímaritinu Atlantica, af öllum tímaritum, gaf forsrh. þá yfirlýsingu að hann sæi ekki til þess við ystu sjónarrönd að Íslendingar óskuðu eftir aðild að Evrópusambandinu. Hann sá það ekki einu sinni við ystu sjónarrönd. Ysta sjónarrönd hlýtur að ná til lengri tíma en eins kjörtímabils. Yfirlýsing þessi kom í blaði sem engir sjá nema farþegar Flugleiða en mér þykir miklum tíðindum sæta þegar hæstv. forsrh. gefur slíkar yfirlýsingar.

Í ræðu utanrrh. er að sjálfsögðu ekkert rætt um þessi mál því að kjörtímabilinu er að verða lokið og samkomulagið ekki um annað en að málin yrðu ekki tekin á dagskrá á þessu kjörtímabili. Mér finnst ástæða til að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann sé sammála þessari framtíðarsýn, að aðild Íslendinga að Evrópusambandinu sé ekki einu sinni sjáanleg út yfir ystu sjónarrönd. Ég hefði að sjálfsögðu kosið, þó svo að Evrópusambandsmálin væru ekki sett á dagskrá yfirstandandi kjörtímabils, að hæstv. ríkisstjórn hefði þá lokið sinni heimavinnu, þ.e. hún hefði lagt vinnu í að grandskoða kost og löst við aðild að Evrópusambandinu og upplýsti þjóðina um það. Á því máli eins og öllum eru auðvitað bæði kostir og gallar. Þegar að því kæmi að umræðan hæfist aftur og málið kæmist á dagskrá þá væri þjóðin betur búin undir að taka þátt í þeirri umræðu og mynda sér skoðun en hún er í dag. Ég efast um og fullyrði raunar að í engu öðru Evrópuríki á sér stað svo lítil umræða af hálfu opinberra aðila um þróunina í Evrópu eins og hér á Íslandi. Það er varla minnst orði á t.d. þróunina í gjaldmiðilsmálinu, hvaða áhrif það getur haft á íslenskt atvinnulíf, sérstaklega á útflutningsiðnað og raunar allt viðskiptalíf á Íslandi, þegar evran verður tekin upp. Stöðugt fleiri ríki eru líkleg til þess að gerast aðilar að því myntsamstarfi. Ekki er reynt að spá um áhrif þess að t.d. eitt af EFTA-ríkjunum, Sviss, telur sig með gilda aðildarumsókn hjá Evrópusambandinu og þar láta sumir hverjir í ljós þá skoðun að það verði orðið aðili að Evrópusambandinu eftir hugsanlega tvö til fjögur ár. Hvaða áhrif hefði það á EFTA-samstarfið, á stöðu Íslands eða á EES-samninginn? Um það er ekkert rætt.

Ég vil aðeins láta koma fram, herra forseti, að ég geri mér grein fyrir því að íslenska þjóðin tók þá afstöðu í síðustu kosningum að styðja ekki eina stjórnmálaflokkinn sem beitti sér fyrir því að Ísland sendi aðildarumsókn og hæfi samningaviðræður við Evrópusambandið. Við alþýðuflokksmenn sem börðumst fyrir því fengum ekki stuðning við það. Þar við situr að sjálfsögðu og enginn deilir við þann dómara sem kjósendur eru. Engu að síður fullyrði ég og á von á því að það komi fram að sú ákvörðun okkar að senda ekki aðildarumsókn inn með öðrum EFTA-þjóðum eða í síðasta lagi áður en ríkjaráðstefnunni lauk, eftir að Norðmenn voru búnir að fella drög að þeim samningi, hún mun kosta okkur það að þegar við fyrr eða síðar gerumst aðilar að þessu samstarfi, verði okkur þar boðin verri kjör en við hefðum fengið á sínum tíma. Ég held að samningsstaða okkar fari versnandi eftir því sem fleiri ríki gerast aðilar að þessu samstarfi, ekki síst þegar menn líta til þess ríkjahóps sem þar er verið að ræða um.

Ég held að tíminn muni leiða í ljós að við Íslendingar munum ekki eiga margra kosta völ eftir 15--20 ár, jafnvel fyrr. Við munum þá eiga fárra annarra kosta völ en að tryggja hagsmuni okkar gagnvart Evrópusambandinu á annan hátt en okkur dugar í dag, hugsanlega með beinni aðild. Ég óttast að samningsstaða okkar fari ekki batnandi á þessu tímabili og að Íslendingar muni verða fyrir þeirri erfiðu reynslu að þurfa að gera sér ljóst að hikið, ákvörðunin um að óska ekki eftir samningaviðræðum á hentugum tíma, hafi kostað landið áhrif innan þessa samstarfs sem það ella hefði getað fengið. Þetta er mín skoðun þó ég geri mér að sjálfsögðu ljóst hver hinn pólitíski veruleiki í landinu er, hver niðurstaða hins almenna kjósanda var og að málið er ekki á dagskrá.

Að lokum vil ég aðeins minnast á öryggismálin. Í skýrslu hæstv. utanrrh. til Alþingis er sagt að til standi endurskoðun á öryggisstefnu NATO sem eigi að leysa af hólmi þá endurskoðuðu stefnu sem samþykkt var árið 1991. Það er rætt um að þeirri endurskoðun verði lokið að ég held fyrir aprílmánuð á árinu 1999. Í tengslum við þetta sagði utanrrh. að það stæði yfir eða til stæði að endurskoða öryggisstefnu Íslands. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann muni ekki gefa öðrum en fulltrúum núverandi stjórnarflokka kost á að koma að þeirri endurskoðun. Í nokkuð langan tíma hefur verið þokkaleg sátt um öryggisstefnuna, virðulegi forseti, og því eðlilegt að við endurskoðun slíkar stefnumótunar gefist þingflokkunum kostur á að taka þátt í henni.