Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 15:47:30 (966)

1998-11-05 15:47:30# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[15:47]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og kemur væntanlega engum á óvart að við alþýðuflokksmenn stöndum Evrópumegin við ríkisstjórnina. Alþfl. er eini stjórnmálaflokkurinn í landinu sem hefur gert það að stefnu sinni, ekki að vera í Evrópusambandinu heldur að láta á það reyna með aðildarumsókn og viðræðum við Evrópusambandið hvort við getum komist að samkomulagi sem geri okkur auðveldara að vera innan Evrópusambandsins en að standa utan þess. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. og kemur engum á óvart.

Varðandi varnarmálin og samfylkinguna þá er það einfaldlega að segja að þeir flokkar sem að henni standa eru að gera samstarfssamning sín á milli til fjögurra ára. Þar gera menn samkomulag um hvernig staðið skuli að málinu. Menn eru ekki að yfirgefa flokksstefnu sína. Alþb. er ekki að ganga inn í flokksstefnu Alþfl. Alþfl. er ekki að ganga inn í flokksstefnu Alþb. Við erum að gera með okkur samkomulag, mætast á miðri leið til fjögurra ára ef svo má segja, nákvæmlega með sama hætti, herra forseti, og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gekk til samkomulags við sjálfstæðismanninn Gunnar Thoroddsen til myndunar ríkisstjórnar til fjögurra ára þar sem þetta mál var ekkert stórmál. Munurinn á því sem við gerum og því sem Steingrímur gerði á sínum tíma er hins vegar sá að við ætlum að ganga frá samstarfssamningi okkar til fjögurra ára fyrir fram svo kjósendur viti um hvað við höfum náð samkomulagi áður en þeir ganga að kjörborðinu. En hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gekk frá samkomulagi sínu, m.a. um varnarmálin við Gunnar Thoroddsen sjálfstæðismann, eftir kosningar.