Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 16:29:05 (980)

1998-11-05 16:29:05# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[16:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel afar mikilvægt að það sé alveg réttur skilningur á varnarsamningnum. Eins og ég sagði áðan þá er hann ótímabundinn. Hins vegar getur hvor ríkisstjórnin sem er farið þess á leit við ráð Atlantshafsbandalagsins að það meti hvort þörf sé fyrir aðstöðu á Íslandi til sameiginlegra varna bandalagsins. Verði ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna ekki sáttar við tillögur Atlantshafsráðsins innan sex mánaða frá því að málaleitunin er borin fram getur hvor ríkisstjórnin sem er sagt samningnum upp og skal hann þá falla úr gildi tólf mánuðum síðar.

Það er náttúrlega alveg ljóst að ef á að koma til þessa þá þarf mikið að hafa gengið á áður. Íslensku ríkisstjórninni og bandarísku ríkisstjórninni ber skylda til að koma sér saman um mat á þessum aðstæðum og það höfum við getað gert. Og það er engin ástæða til þess að ætla annað en að svo geti orðið árið 2001.

[16:30]

Þetta tókst eftir nokkurn tíma 1996, áður hafði það aðeins verið til tveggja ára. Við töldum mikilvægt að skapa þarna meiri vissu og þess vegna var samningurinn til fimm ára og var fallist á það. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þetta geti endurtekið sig.

Mér finnst að við þurfum að ræða hvernig Alþingi kemur að þessu máli á næsta kjörtímabili. Fyrir mitt leyti er ég mjög opinn fyrir því og tel eðlilegt að Alþingi komi að því og viti af því. Hins vegar vil ég líka benda á að það er afar mikilvægt að fullur trúnaður ríki um þessi mál. Það var mjög óheppilegt í aðdragandanum 1994 að það voru stórar fyrirsagnir í fjölmiðlum. Morgunblaðið birti forsíðufrétt um að þarna væru að gerast tíðindi sem ekki var. Það spillti mjög fyrir samningaviðræðunum. Það átti sér hins vegar ekki stað í samningaviðræðunum sem lauk 1996.