Skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 16:32:20 (981)

1998-11-05 16:32:20# 123. lþ. 21.91 fundur 95#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins# (umræður utan dagskrár), Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[16:32]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil strax í upphafi þegar þessi vandaða skýrsla Ríkisendurskoðunar er tekin til umræðu, skýrsla sem er nálægt eitt hundrað síðum, nefna það sérstaklega að það er að verða frekar regla en undantekning þegar Ríkisendurskoðun tekur starfsemi eða ákvarðanir ráðuneyta eða einstakra stofnana til skoðunar að þá bregðast þau við líkt og Ríkisendurskoðun sé að gera að þeim einhvers konar aðför.

Nefna má dæmi um þetta frá í fyrra þegar dómsmrn. og fjmrn. brugðust ókvæða við þegar Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir vegna framferðis þeirra í málum sem tengdust ÞÞÞ.

Hið sama gerist nú þegar Ríkisendurskoðun skilar mjög vandaðri skýrslu sem stofnunin hefur verið u.þ.b. eitt og hálft ár að vinna og landbrn. hefur haft mýmörg tækifæri til að gera athugasemdir við. Í sérstakri greinargerð, sem ráðuneytið hefur sent frá sér, segir m.a. með leyfi forseta:

,,... ýmislegt í skýrslunni kalli á að leiðréttingar og athugasemdir séu gerðar, enda er framsetning margra atriða og fullyrðingar í skýslunni misvísandi og jafnvel rangar.``

Virðulegi forseti. Vegna fullyrðinga af þessum toga, sem finna má í greinargerð landbrn., tek ég fram að Ríkisendurskoðun vann að þessari skýrslu í eitt og hálft ár. Á þeim tíma hafði ráðuneytið mjög mörg tækifæri til að koma að þeim athugasemdum sem það vildi gera við skýrslu Ríkisendurskoðunar, svo ekki sé talað um að ,,leiðrétta það sem rangt er``, eins og segir í greinargerð hæstv. landbrh.

Þá vil ég taka sérstaklega fram að í formála að skýrslu Ríkisendurskoðunar er tekið fram að drög að skýrslunni hafi verið send ráðuneytinu til yfirlestrar og umsagnar 14. júlí 1998 þar sem ráðuneytinu var gefinn fjögurra vikna frestur til þess að tjá sig um efni skýrslunnar. Þá hef ég enn fremur fengið staðfest að Ríkisendurskoðun bauð ráðuneytinu að gera enn frekari athugasemdir við skýrsluna þegar lokadrög hennar lágu fyrir. Hún hefur ekkert breyst frá því að þau lokadrög lágu fyrir. Þær athugasemdir sem nú koma, eftir að skýrslan er komin fram, verður nánast að dæma dauðar og ómerkar sökum þess að ég efast um að Ríkisendurskoðun hafi nokkurn tíma tekið upp jafnmikið af athugasemdum ráðuneytisins. Mér finnst því mjög ómaklega að Ríkisendurskoðun vegið þegar þessar athugasemdir eru settar fram.

Virðulegi forseti. Hvert er þá efni skýrslu Ríkisendurskoðunar? Hvað var stofnunin að skoða? Skýrsla Ríkisendurskoðunar fjallar um afgreiðslu ráðuneytisins á 109 málum á árabilinu 1993 til og með ársins 1997. Málin lúta að þeim jörðum sem jarðadeild hefur haft milligöngu um að selja á þessu árabili en það eru u.þ.b. 55 mál. Í öðru lagi fjallar skýrslan um jarðir sem jarðadeild hefur haft milligöngu um að kaupa á þessu árabili sem eru samtals ellefu mál. Í þriðja lagi fjallar skýrslan um ábúendaskipti á jörðum og leigu á þeim sem eru samtals 43 mál á þessu tímabili, þ.e. 109 mál. Skýrslan fjallar ekki um annað. Hún fjallar um vinnubrögð ráðuneytisins í umfjöllun þess og ákvarðanatöku og afgreiðslu í þessum 109 málum.

Í þessari skýrslu ber Ríkisendurskoðun saman vinnubrögð ráðuneytisins við þær reglur sem gilda um stjórnsýsluna í landinu. Annað er ekki gert í þessari skýrslu. Kannski er ástæðan fyrir því að Ríkisendurskoðun tekur fyrir árabilið 1991--1997 fyrst og fremst sú að á þeim tíma eru í gildi í landinu stjórnsýslulög sem ráðuneytinu er ætlað að fara eftir. Það er kannski lán ráðuneytisins að ekki er farið mikið aftar í tímann. Á þeim tíma eru til skýrar réttarheimildir um það hvernig ráðuneytinu og stjórnsýslunni í heild er ætlað að starfa. Það eru þessar réttarheimildir, hin settu lög, sem eru borin saman við vinnubrögð ráðuneytisins við afgreiðslu á þessum málum.

Virðulegi forseti. Niðurstaðan af eins og hálfs árs vinnu Ríkisendurskoðunar er sú að starfsemi jarðadeildar ráðuneytisins fái í litlu sem engu staðist þær reglur sem um þessa starfsemi gilda. Það er svo einföld niðurstaða. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að jarðadeild landbrn. höndlar með mikil verðmæti. Ekki er fráleitt að áætla, virðulegi forseti, að þau verðmæti sem þessi jarðadeild höndlar með séu á bilinu 4--8 milljarðar þó að bókfært verðmæti sé reyndar mun minna. Það er því ekki um það að ræða að hér sé um einhverja litla undirdeild í ráðuneyti að ræða heldur er um að ræða deild sem fer með gríðarleg verðmæti í eigu ríkisins.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Tíminn er fljótur að líða í þessu, en hér er alveg sama hvar borið er niður, hvort það er skjalaskráning eða skjalavarsla, vinnubrögð við ábúendaskipti eða jarðakaup, hvort um er að ræða auglýsingar, hvort um er að ræða málshraðareglu, hvort um er að ræða jafnræðisreglu og hvar er borið niður, alls staðar er sama niðurstaðan, virðulegi forseti, deildin virðist hvergi nokkurs staðar hafa farið að þeim reglum sem henni hafa verið settar.

Ég hlýt að enda þessa ræðu, virðulegi forseti, á að hvetja til þess að hæstv. ráðherra sjái sóma sinn í því að gera gangskör að því að ráðuneytið verði skoðað í heild sinni. Þegar skoðun á einni deild leiðir til þessarar niðurstöðu, virðulegi forseti, vænti ég þess að ráðherra hafi frumkvæði að því að skoða ráðuneyti sitt eins og það kemur fyrir núna.