Skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 16:38:22 (982)

1998-11-05 16:38:22# 123. lþ. 21.91 fundur 95#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins# (umræður utan dagskrár), landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[16:38]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á lokaorðum hv. málshefjanda og segja við hann að ég er tilbúinn til þess og mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því að farið verði í gagngera athugun á þeim athugasemdum sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar hvað varðar vinnubrögð jarðadeildar ráðuneytisins. Við munum skoða hvernig við bregðumst við því sem hér eru gerðar athugasemdir við. Starfsemi jarðadeilarinnar er nokkuð sérstök. Starfsemi hennar er allt öðruvísi en almenn starfsemi stjórnsýslu og þess vegna tel ég ekki ástæðu til þess að ætla að almennt starf ráðuneytisins sé ekki með þeim hætti sem stjórnsýslan í landinu gerir ráð fyrir og leyfi mér að fullyrða svo.

Ég vil hins vegar segja það út af því sem fram kemur í máli hv. málshefjanda að hann beindi ekki til mín formlega beinum spurningum varðandi þá skýrslu sem er til umræðu. Það gefur mér því tækifæri til þess að taka hana til almennrar umræðu eins og þessi umræða gefur tilefni til og þá líka að ræða aðeins um þau viðbrögð ráðuneytisins að gera nokkrar athugasemdir við skýrsluna og reyna að koma því á framfæri, bæði við þingheim og við almenning í landinu með fréttatilkynningu sem fór frá ráðuneytinu til fjölmiðla vegna þess að okkur finnst að það sé ekki tekið þannig á þessum erfiðu og mikilvægu málum sem jarðadeildin fjallar um að það hafi komist nægjanlega vel til skila. Þar á ég kannski ekki endilega við umfjöllun Ríkisendurskoðunar heldur einnig fréttir og umfjöllun fjölmiðla sem eðli málsins samkvæmt er auðvitað þannig að sagt er frá athugasemdum og því sem miður fer en hugsanlega ekki gerð sama grein fyrir útskýringum og viðhorfum eða viðbrögðum ráðuneytisins við því.

Með því er ég ekki að gera neitt lítið úr því að Ríkisendurskoðun hefur unnið verk sitt samviskusamlega, eins og henni ber að gera, og hefur hér farið mjög ítarlega yfir deildina. Hún kemur fram með margar athugasemdir sem ráðuneytinu og stjórnendum þar ber að taka tillit til og það verður gert. Þegar hefur verið brugðist við sumu af því og annað er í athugun og úrvinnslu.

En það sem okkur finnst í landbrn., og þeim sem hafa starfað við jarðadeildina á undanförnum árum, ekki koma nægilega fram er við hvaða aðstæður er að búa. Hér er ekki verið að fjalla um eignir eins og þegar verið er að selja bíl eða hús. Hér er ekki verið að fjalla um hlutina eins og að markaðslögmálið eitt og sér skipti máli. Hér er verið að fjalla um það og það er í raun hlutverk deildarinnar og ætlast til þess að ráðuneytið sjái til þess að tryggð sé búseta á jörðum, það sé atvinnustarfsemi til sveita, það sé staðið eðlilega að ættliðaskiptum og fjölmargt sem má auðvitað miklu frekar tengja það að hér sé verið að fást við ýmiss konar félagsleg málefni en bara kaup og sölu eigna þó að það sé út af fyrir sig mikilvægt mál sem þarf að fara vel með og ráðuneytinu ber að gera, og eins og málshefjandi benti á, er um mikil verðmæti að ræða sem þarf að höndla rétt um.

Mikið álag hefur verið á deildinni á þessum árum sem eru tekin til skoðunar. Okkur finnst full ástæða til þess að benda á það og láta það koma fram. Rerkstrarafkoma bænda hefur á þessu árabili versnað gríðarlega og það hafa verið miklir erfiðleikar. Því hafa umsóknirnar verið fjölmargar, fleiri en áður, og aukið álagið. Umsóknirnar og óskirnar hafa fyrst og fremst verið um það að taka á málum sem hafa ekki gengið upp á hinum frjálsa markaði. Það er kannski vandamálið sem við búum við, og meira en það að við búum við, okkur ber lögum samkvæmt að taka tillit til þess. Það segir beinlínis svo í lögum um Jarðasjóð og jarðeignir ríkisins, sem ráðuneytið og jarðadeildin fer með, að honum sé heimilt að kaupa jarðir bænda sem seljast ekki eðlilega á frjálsum markaði, þ.e. eftir að bóndinn hefur leitað eftir því að geta komið jörð sinni á markað, en hún ekki selst, þá leitar hann til Jarðasjóðs um það að Jarðasjóður kaupi af honum jörðina vegna þess að hann er hugsanlega að missa hana, vegna greiðsluerfiðleika, vegna þess að gjaldþrot blasir við. Þá sjá auðvitað allir að þessi viðskipti eiga sér ekki bara stað á markaðsgrundvelli, það er fleira sem verður að taka tillit til. Síðan á sami bóndi lögvarða kröfu á því að sjóðurinn veiti honum ábúð á jörðinni áfram. Hér er bara dæmi um það sem lögin kveða á um og krefjast í þessu efni.

Hæstv. forseti. Tíminn er hlaupinn frá mér. En eins og hv. málshefjandi nefndi eru hér fjölmörg önnur atriði. Það er t.d. um málshraðareglu sem er reyndar skýrt frá hér í greinargerð ráðuneytisins að getur tekið ótrúlega langan tíma frá því að erindi berst um jörð. Það þarf að auglýsa jörðina, það þarf að leita samþykkta tiltekinna stjórnvalda, sem eru jarðanefnd og hreppsnefnd, það tekur langan tíma. Það þarf að fara fram úttekt og mat á jörðinni, hugsanlega yfirmat á jörðinni, og þá er fyrst hægt að hefja samningaviðræður. Allir sjá að þetta gerist ekki á mjög skömmum tíma.

Ættliðaskiptin eru svo sérmál sem ég reyni kannski aðeins að koma aftur að í seinni ræðu minni.