Skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 16:44:24 (983)

1998-11-05 16:44:24# 123. lþ. 21.91 fundur 95#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[16:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. málshefjanda að ég held að við eigum ekki að venja okkur á það, hvorki við þingmenn né ráðuneyti, að taka skýrslum Ríkisendurskoðunar þannig að í þeim felist einhver árás eða mér liggur við að segja illvilji gagnvart viðkomandi aðila. Að mínu mati er þessi skýrsla, þó að hún geri fjölmargar athugasemdir, ekki neinn sérstakur áfellisdómur yfir jarðadeild landbrn. Hins vegar koma fram mjög margar ábendingar um mjög margt sem betur mætti fara t.d. hvað varðar málsmeðferð og vinnubrögð og yfir það er farið mjög ítarlega í skýrslunni.

[16:45]

Þær athugasemdir eru að hluta almenns eðlis og eiga við mjög víða í stjórnsýslunni. Ég hygg að fleiri mundu fá þau einkunnarorð að þar sé úr hófi fram mikill dráttur á afgreiðslu mála, seinagangur og annað þar fram eftir götunum. Margt þarna er gamalkunnugt. Annað er sértækara og lýtur að þeirri sérstöku umsýslu sem þarna er á ferðinni, þ.e. varðar eignir ríkisins og ráðstöfun þeirra.

Ég held, miðað við kynni mín af þessum málum, að einn aðalvandinn hér sé að um er að ræða undirmannaða eða yfirlestaða starfsemi og hefur lengi verið. Ég er þeirrar skoðunar að menn hafi aldrei horfst í augu við það frá því að Landnám ríkisins var lagt niður á sínum tíma að þessi gífurlega umsýsla, um 800 jarða eða hvað það nú var, og öll sú forvöltun gerist náttúrlega ekki af sjálfu sér með einu og hálfu stöðugildi. Það er bara út í hött, enda var Landnám ríkisins heil stofnun með mörgum starfsmönnum. Ég veit ekki til þess að það orð af hafi farið af þeim að þeir hafi legið í leti. Ætli þeir hafi ekki verið fjórir eða fimm? Síðan var Landnámið lagt niður, auðvitað í hagræðingarskyni, og verkefnið flutt inn í ráðuneyti. Að mínu mati var mjög umdeilanleg ráðstöfun að færa umsýslu af þessu tagi inn í ráðuneyti í staðinn fyrir að hafa einhverja sjálfstæða stofnun eða eitthvað þvílíkt, samanber umhvrn. þar sem Náttúruvernd ríkisins hefur umsjón með þjóðgörðum. Þarna var í raun og veru engum starfsmönnum bætt við. Hvað gat gerst annað en að þarna hlæðust málin upp og gífurlegur dráttur yrði á afgreiðslu mála o.s.fv.? Ég held að hér sé í raun og veru á ferðinni að nokkru leyti sjálfskaparvíti sem margir beri ábyrgð á, einnig Alþingi og fjárveitingavaldið sem ekki hafa lagt þessari starfsemi til þann mannafla og fjármuni sem nauðsynlegir eru til að annast þessa umsýslu þannig að hún verði góð og greið, að afgreiðsla mála gangi hratt fyrir sig o.s.frv.

Til viðbótar má nefna, sem kom að hluta fram í svari hæstv. ráðherra og er alveg hárrétt, að löggjöfin sem jarðadeildinni er ætlað að vinna eftir er orðin mjög forneskjuleg. Bæði jarðalögin og ábúðarlögin og fleira sem hér kemur til þarfnast sárlega endurskoðunar. Það auðveldar ekki jarðadeildinni og þessum aðilum starfið að búa við löggjöf sem að hluta er í raun ekki lengur í takt við tímann og aðstæðurnar í umhverfinu. Þar má benda á reglur um að reyna að halda jörðum í byggð sem engar forsendur eru fyrir o.s.frv.

Hér er því margt sem þarf að skoða. Að sjálfsögðu þarf að taka á þeim þáttum sem þarna eru ekki í nógu góðu lagi, en það er mjög margt fleira sem skoða þarf í þessu samhengi.