Skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 16:55:36 (987)

1998-11-05 16:55:36# 123. lþ. 21.91 fundur 95#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins# (umræður utan dagskrár), ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[16:55]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að blanda mér í þetta mál sem gamall landseti ríkisins og með allverulega reynslu af stjórnsýslu ríkisins á þessum jörðum. Landseti ríkisins, segi ég, það er nú kannski ekki alveg rétt. Ég var öllu heldur landseti guðs, ég sat á kirkjujörð þar sem kirkjan hafði á sínum tíma verið helguð Maríu mey og Pétri postula. Því má frekar líta svo á að ég hafi gengið á guðs vegum í afnotum mínum af jörðinni en það breytir því ekki að staðgengill guðs á jörðu var landbrh. á hverjum tíma.

Eins og fram kom áðan er ljóst að ríkið er stærsti jarðeigandi á Íslandi. Mér vitanlega hefur það aldrei tekið þetta hlutverk sitt mjög alvarlega. Ég varð ekki fyrir neinum verulegum skakkaföllum í viðskiptum mínum við landeiganda en vil þó taka fram að þegar faðir minn hóf búskap á Selárdal og hafði gengið frá málum og óskað eftir að fá afsal þá minnist ég þess að honum var sent afsal fyrir jörðinni Selárdal í Súgandafirði, sem bendir til þess að annaðhvort hafi menn verið hraðvirkir og hroðvirkir í ráðuneytinu eða þá að þeir áttuðu sig ekki á því hvaða jarðir þeir voru að leigja hverju sinni.

Vel má vera að þessi jarðadeild hafi verið undirmönnuð eins og fram hefur komið. Ég hygg að á löngum köflum hafi eignaumsýsla ríkisins að verulegu leyti verið unnin í hjáverkum af starfsmönnum ráðuneytisins og lítillar kunnáttu gætt um meðferð þeirra skjala og pappíra sem nauðsynlegir eru í fasteignaviðskiptum af þessu tagi.

Ég vil benda á að jarðeignir ríkisins eru af tvennum toga, kirkjujarðir og jarðir sem komist hafa í eigu ríkisins með öðrum hætti. Það hefði verið ástæða til og kannski hefur það verið gert, ég spyr þá ráðherra hvort það hafi verið gert. Kirkjumrh. gerði upp við íslenska þjóðkirkju með því að taka á sig ákveðnar fjárhagslegar skuldbindingar. Hurfu þá ekki um leið allar kirkjujarðir í eigu ríkisins? Eru þær komnar úr ráðsmennsku landbrh. og komnar í eign landbrn.?