Skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 17:02:22 (989)

1998-11-05 17:02:22# 123. lþ. 21.91 fundur 95#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[17:02]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil endurtaka það, hafi það ekki komið skýrt fram í máli mínu í upphafi, að ég lít alls ekki á skýrslu Ríkisendurskoðunar sem einhverja árás. Og ég lít heldur ekki á þær skýringar og athugasemdir sem ráðuneytið hefur sent frá sér sem árás á Ríkisendurskoðun eða skýrslu hennar. Ég ber mikla virðingu fyrir Ríkisendurskoðun og tel að hún eigi að sinna verkefni sínu, m.a. eins og hún gerir í þessari skýrslu, fara yfir stjórnsýsluhætti og gera athugasemdir sem okkur, sem önnumst stjórnsýsluna á þennan hátt sem framkvæmdarvald, ber að taka tillit til.

Um þá upprifjun sem kom fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um nefnd til að fylgja skýrslum Ríkisendurskoðunar eftir þá hef ég sjálfur líka lagt því lið áður í umræðum á þingi --- meðan ég sat í fjárln. fékk nefndin slíkar skýrslur til skoðunar --- að einhver vettvangur eða farvegur þyrfti að vera til að fylgja þeim eftir. Ég er út af fyrir sig sammála því.

En ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni þegar hann segir: Þetta er í raun ekki stóridómur. Þetta eru auðvitað alvarlegar athugasemdir sem við tökum til skoðunar, en þetta er ekki stóridómur í því tilfelli að hvergi er talað um neitt misferli. Það er ekki talað um að fjárhagsleg málefni hafi misfarist, eins og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir þó sagði að gæti gerst. Hún fullyrti ekki að það væri, að sjálfsögðu ekki, en það gæti gerst af því hér væri umsýsla um mikla fjármuni, miklar eignir og stórar tölur. Þetta er allt saman rétt og okkur ber þess vegna að fara vel með slíka hluti. Og það er líka rétt að auðvitað ber ráðuneytinu og þessari deild að fara að almennum stjórnsýslulögum.

Ég sagði aðeins að verkefni deildarinnar væru svo viðamikil að erfitt væri að fara eftir stjórnsýslulögunum eins og þau eru og okkur hefur ekki tekist það. Málshraðareglan hefur ekki verið virt vegna þess, eins og ég nefndi og dró upp nokkur dæmi um, hve það væri raunverulega margt sem þyrfti að gerast þegar fjallað er um eignabreytingu eða ábúendaskipti á jörð. Það tekur í raun meiri tíma en þessi löggjöf gerir ráð fyrir. Það er eitt af því sem þarf að skoða.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spurði hvað það væri sem verið er að gera. Við höfum nú þegar aukið starfslið í deildinni. Við höfum breytt skjalavörslunni þannig að það er til bóta. Við höfum nú þegar hafið endurskoðun laganna, og það var reyndar gert áður en skýrslan kom út, en sú vinna fór í gang fyrr á þessu ári. Eitt af því sem þarf að gera í viðbót er að skoða leigugjöld og innheimtu þeirra.

Ég vil þó að lokum segja, hæstv. forseti, því ég sé að tími minn er liðinn, að ekki er mögulegt að fara svo með leigugjöldin að það geti ráðið úrslitum um hvort bændur geti setið ríkisjarðir eða ekki. Eins og afkoma þeirra er í dag mun ég ekki beita mér fyrir stórfelldum breytingum á því en það þarf að sjálfsögðu að fara yfir þau ákvæði sem þar er að finna, yfir einstakar jarðir, yfir einstaka jarðarskika, sem eru í sumum tilfellum lágt leigðir, kannski sumarbústaðalóðir, og það er mál sem þarf að endurskoða.