Flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 17:11:52 (991)

1998-11-05 17:11:52# 123. lþ. 21.92 fundur 96#B flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[17:11]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér finnst þetta dálítið undarleg málsupptekt. Hér er stjórnmálaforingi, sem ætlar að fara að verða landsfaðir, að hefja máls og hugsar sér að afla sér fylgis í dreifbýlinu.

En nóg um það. Ríkisendurskoðun gerði vandaða stjórnsýsluúttekt á Húsnæðisstofnun og benti á fjölmörg atriði sem betur mættu fara, m.a. það að hún taldi að viðskiptin við veðdeildina væru óhagkvæm og dýr. Í kjölfar þess var samningi Húsnæðisstofnunar við veðdeildina sagt upp og það eru 18 mánuðir síðan.

Það er rétt sem fram kom að mér fóru að berast bréf frá Húsavík. Eins og hv. þm. vitnaði til og las hér orðrétt upp úr bréfinu, þá bað bæjarstjórnin á Húsavík um að Íbúðalánasjóður yrði fluttur til Húsavíkur, ekki bara einhver hluti hans. Þetta bréf var bókað í ráðuneytinu 22. sept. 1998.

Í fyrirspurnatíma á Alþingi fljótlega eftir að þing kom saman beindi hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir til mín sömu spurningu og spurði hvað ég hefði gert í þessu máli. Ég svaraði því neitandi að ég gæti staðið að flutningi Íbúðalánasjóðs til Húsavíkur með vísan til þess fyrirheits sem starfsmenn Húsnæðisstofnunar hefðu fengið. En síðan bætti ég við, og les nú orðrétt upp úr ræðu minni, með leyfi forseta:

,,Hitt er svo annað mál að samningi Húsnæðisstofnunar við veðdeild Landsbankans hefur verið sagt upp og verkefni sem veðdeildin hefur sinnt fyrir Húsnæðisstofnun, svo og ýmis önnur verkefni sem Íbúðalánasjóður þarf að láta vinna, gætu farið ágætlega á landsbyggðinni. Það er alveg hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að nútímatækni, símalínan og sú samskiptavæðing sem gengið hefur yfir í þjóðfélaginu, gerir það mögulegt að vinna hluti á landsbyggðinni eða fjarri Reykjavík sem ekki var kannski eins gráupplagt áður. Ég ætla bara að vona að stjórn Íbúðalánasjóðs leiti eftir því að láta vinna verkefni úti á landsbyggðinni sem hægt er að koma þar fyrir.``

Að þessum orðum sögðum reiknaði ég með því að fylgst hefði verið með því á Húsavík hvert svar mitt hefði verið við fsp. hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Og það er alveg rétt og ég skal taka það á mig að dregist hefur að svara formlega bréfi bæjarstjórnar á Húsavík, en ég hef nú reyndar komið því í verk núna.

[17:15]

En það komu engin viðbrögð frá Húsavík. Ég bauð upp á að það yrði kannað hvort ekki væri hægt að flytja eitthvað af verkefnum veðdeildarinnar út á land. Hins vegar komu viðbrögð frá Sauðárkróki. Þeir tóku við sér, gáfu sig fram og bentu á að þetta væri hægt að gera á Sauðárkróki með vísan til aðstæðna þar.

Leitað var eftir samningum við veðdeild Landsbankans um breytingu á þessum samningi en því var neitað. Veðdeildin bauð óbreyttan samning til eins árs. Það var kannað hjá öðrum lánastofnunum hvort hægt væri að ná hagkvæmari samningum. Það var athugað hvort Íbúðalánasjóður gæti tekið að sér öll verkefni veðdeildarinnar en það kom í ljós að Íbúðalánasjóði var neitað um tengingu eða þjónustu frá Reiknistofu bankanna, sem er alveg nauðsynleg fyrir Íbúðalánasjóð, vegna hagræðis viðskiptamanna. Íbúðalánasjóður stóð þá frammi fyrir því að verða að leysa málið öðruvísi.

Þeir gátu tengst Reiknistofu bankanna í gegnum Búnaðarbankaútibúið á Sauðárkróki og að ráði varð að setja upp undirdeild innheimtusviðs Íbúðalánasjóðs á Sauðárkróki. Við njótum þar þjónustu hugbúnaðarfyrirtækis sem heitir Element. Það er verið að reyna samninga við bankana um að flytja afgreiðslu húsbréfanna, greiðslumatið og veðmatið, til lánastofnana. Það er fullt samkomulag um ferlið og hvernig skuli staðið að málinu. Það er einungis enn þá ágreiningur um gjald fyrir þjónustuna. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Gangi ekki saman þá er hægt að leysa þessi verkefni hjá Íbúðalánasjóði.

Samkvæmt þeim skipulagsbreytingum sem verið er að vinna að þá mun það spara 20--25 millj. árlega að vinna þennan hluta verkefna veðdeildarinnar á Sauðárkróki. (Forseti hringir.) Það verður sem sagt 20--25 millj. kr. ódýrara fyrir neytendur árlega að flytja þessa starfsemi til Sauðárkróks.