Flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 17:25:45 (995)

1998-11-05 17:25:45# 123. lþ. 21.92 fundur 96#B flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[17:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hæstv. ráðherra vitnaði í stjórnsýsluendurskoðun sem gerð var á Húsnæðisstofnun en lét þess ekki getið að í þeirri sömu stjórnsýsluendurskoðun eru færð sterk rök fyrir því að bjóða eigi út þá þjónustu sem veðdeildin hefur annast. Og ef hæstv. ráðherra tekur mark á þessari stjórnsýsluúttekt og notar hana máli sínu til stuðnings, af hverju gildir það þá ekki um alla þætti hennar? Það var ekki gert hér.

Ef hæstv. ráðherra er að vísa, eins og síðasti ræðumaður líka gerði, í þá nefnd sem sett var á laggirnar til að undirbúa þetta mál þá er skylda stjórnvalds til að vísa erindi rétta boðleið alveg ótvíræð ef það á ekki heima í ráðuneytinu. Í 7. gr. stjórnsýslulaga segir, með leyfi forseta:

,,Berist stjórnvaldi skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, ber því að framsenda erindið ...``

Telji hæstv. ráðherra að málið hafi ekki verið í hans höndum þó að það sé auðvitað áfram á hans ábyrgð þá er engin afsökun að segja að erindið hafi ekki verið sent nefndinni sem Húsvíkingum þurfti ekkert endilega að vera kunnugt um að væri til. Ráðherra fékk erindið og hann átti því að framsenda það og honum bar skyldan til að greiða úr því sem til hans barst.

Varðandi það að menn á Húsavík hafi verið að tala um allan sjóðinn þá leiðir það auðvitað af sjálfu að það er útúrsnúningur að segja að af því að aðeins sé í raun um að ræða hluta starfseminnar þá sé þeirra erindi ógilt. Þeir eru að óska eftir viðræðum um málið og auðvitað, ef þær viðræður hefðu leitt í ljós að aðeins væri praktískt að flytja hluta af starfseminni, þá hefðu menn að sjálfsögðu tekið því. Það er því argasti útúrsnúningur að reyna að sleppa svona frá málinu. Auk þess sem hæstv. ráðherra ætti að kannast við gamla, latneska hugtakið pars pro toto. Auðvitað mundu menn þiggja hlutann þó að þeir fengju ekki heildina.

Það að lesa upp svar sitt til hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur og segja að af því að þar hafi verið gefið í skyn að til greina kæmi að flytja einhvern hluta starfseminnar þá sé ráðherra þar með laus allra mála og laus undan því að virða erindi Húsvíkinga viðlits, er náttúrlega léleg afsökun líka. Og ráðherra svaraði því í engu hvers vegna ráðherrann upplýsti ekki um það nákvæmlega hvar málið stóð í þessari umræðu. Er hæstv. ráðherra að reyna að segja að sú hugsun að flytja þetta til Sauðárkróks hafi hvergi kviknað fyrr en eftir umræðurnar hér á dögunum? Og er það þá sannleikurinn allur? Það (Forseti hringir.) er eins gott að það liggi þá fyrir.

Frammistaða hæstv. ráðherra hér er ámælisverð, herra forseti. Það er skortur á góðra manna samskiptaháttum að svara ekki bréfum og virða erindi ekki viðlits. Hæstv. ráðherra hlýtur að skilja að Húsvíkingar sem áttu frumkvæði í þessu máli og töldu sig þar hvorki vera að troða illsakir við einn eða neinn né níða skóinn af neinum öðrum, eru sárir yfir því að svona er komið fram við þá.