Flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 17:29:00 (996)

1998-11-05 17:29:00# 123. lþ. 21.92 fundur 96#B flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[17:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þetta var gamalkunnur söngur hjá hv. 13. þm. Reykjavíkur. Hún telur vinnubrögð gagnvart starfsfólki veðdeildarinnar ámælisverð. Það á ekki að ámæla mér fyrir þau. Ef þau eru ámælisverð að einhverju leyti þá er að ámæla Landsbankanum, því að þetta eru ekki starfsmenn Húsnæðisstofnunar. Þetta eru starfsmenn Landsbanka Íslands. Veðdeild Landsbanka Íslands var verktaki hjá Húsnæðisstofnun og starfsmennirnir voru Landsbankans og heyrðu Landsbankanum til. Það er ekki mitt að kynna starfsfólki Landsbankans breytingar. (JóhS: Hefur ráðherrann engar skyldur við þetta fólk? Hefur ráðherrann engar skyldur?) Húsnæðisstofnun hefur ekki skyldur við þetta fólk. Íbúðalánasjóður hefur það ekki heldur. (JóhS: En viðskrh.?) Það er við hann að tala um það.

[17:30]

Starfsmennirnir vissu fyrir 18 mánuðum að búið væri að segja upp þessum samningi. Þeir vissu það fyrir 18 mánuðum. Forráðamenn Landsbankans töluðu þá um að unnt væri að finna fólkinu annan stað. Ég er viss um að þeir eru allir af vilja gerðir til að finna þeim önnur störf innan bankans.

Erindi Húsvíkinganna hefur náttúrlega verið svarað. Húsvíkingunum hlaut að vera ljóst hvað ég sagði við hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, ef þeir hafa haft nokkurn einasta áhuga á málinu eða nokkur alvara verið í þeirra málflutningi. Til mín bárust engin erindi um að flytja eitt eða neitt til Sauðárkróks fyrr en eftir umræður okkar hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Ég veit ekki hvað menn hugsa á Sauðárkróki, hvenær hugmyndin kviknaði hjá þeim en þeir létu mig ekki vita af henni fyrr en eftir að þessi ræða var flutt.