Opinberar eftirlitsreglur

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 17:50:27 (1003)

1998-11-05 17:50:27# 123. lþ. 21.7 fundur 199. mál: #A eftirlitsstarfsemi á vegum hins opinbera# frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[17:50]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir undirtektir þó að hann hafi vissulega haft stóra og mikla fyrirvara þar á, eins og svo sem vitað var. Afstaða hans var þekkt frá árinu áður.

Það er rétt hjá hv. þm. að málið hefur tekið nokkrum breytingum í framhaldi af meðförum þingsins. Menn hafa lagað sig nokkuð að athugasemdum sem þar voru gerðar. En meginhugsunin er ekki sú með frv. að reglugerðar- og eftirlitsvald ríkisins sé óþarft með öllu, fjarri því. Eins og menn kannski vita er ég fulltrúi flokks sem vill takmarka ríkisafskipti og ríkisstarfsemi. Ég er jafnframt fulltrúi þeirra sjónarmiða að þar sem ríkissamskipti, ríkiseftirlit og slík starfsemi á við, þar skuli hún vera öflug. En hins vegar eigi maður að takmarka hana við það sem nauðsynlegt er.

Það hefur gerst og það þekkir maður sjálfur og hefur því miður tekið þátt í því, bæði sem sveitarstjórnarmaður og síðan þingmaður og ráðherra, að setja reglur um starfsemi mannlífsins sem einstaklingarnir sjálfir eru miklu færari að fara með. Það er ákveðin tilhneiging til þess að skipa öllu niður í regluverk og þar með taka frumkvæðið og ábyrgðina af fólki. En á hinn bóginn eru til fjölmargir þættir í tilveru okkar sem mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að við tökum sameiginlega á okkur ábyrgð fyrir hönd fjöldans. Ég er því viss um að þó að okkur greini á um efni eins og þessi --- og okkur mun örugglega greina á um þau áfram því að til þess erum við í stjórnmálum að láta okkar meginsjónarmið koma fram --- þá getum við kannski fundið einhverja málamiðlun sem menn geta fallist á.