Náttúrufræðistofnun Íslands

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 17:57:46 (1005)

1998-11-05 17:57:46# 123. lþ. 21.8 fundur 205. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[17:57]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er eitt af nokkuð mörgum andlýðræðislegum forstjórafrumvörpum þessarar ríkisstjórnar sem byggir í ofanálag á menntahroka. Hér er svo lítið fari fyrir --- þetta rúmast allt á fjórum síðum --- gert ráð fyrir því að henda stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands fyrir borð og leggja hana af. Menn hæla sér af því að þetta sé í anda þess sem framkvæmt hafi verið gagnvart öðrum stofnunum því hér segir í grg. með 2. gr., með leyfi forseta:

,,Sem dæmi um þessa breyttu stefnu má nefna að með lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, kom forstjóri í stað stjórnar sem var yfir Hollustuvernd ríkisins.``

Ég minnist þess sl. vor að við afgreiddum hér á færibandi hvert frv. á fætur öðru þar sem ráðstöfun af þessu tagi var gerð. Stjórnir stofnana voru settar af og forstjóraveldið aukið. Mér finnst þetta vera mjög slæm og alvarleg þróun sem hér á sér stað og mér finnst þetta vera andlýðræðislegt.

Annað sem ég vildi gera athugasemd við eru þessi dæmalausu ákvæði um háskólamenntun. Öllu öðru fólki en því sem hefur háskólamenntun er úthýst. Ekkert er kveðið á um það hvers konar háskólamenntun er um að ræða. Maður sem er vel að sér í dönsku eða hefur próf upp á vasann í dönsku eða grísku eða stærðfræði getur sótt um starf yfirmanns Náttúrufræðistofnunar Íslands en þeim sem hefur ekki slíkan stimpil upp á vasann er úthýst.

[18:00]

Nú segir reyndar einnig í greininni að viðkomandi skuli hafa þekkingu á verksviði stofnunarinnar. Þakka skuli að hann hafi þekkingu á verksviði stofnunarinnar, sem er meira en sagt er í lögum um ýmsar aðrar stofnanir. En mér finnst algerlega óaðgengilegt að samþykkja lagasmíð af þessu tagi þar sem óskilgreind háskólamenntun er aðgangsmiði að stofnunum ríkisins en öllu fólki er úthýst sem hefur ekki slíkan stimpil upp á vasann þó það kunni að búa yfir sambærilegri þekkingu sem aflað er á annan hátt gegnum reynslu eða með einhverjum öðrum hætti. Mér finnst þetta vera algerlega óaðgengilegt.

Ég er líka mjög gagnrýninn á þá stefnu sem verið er að festa í sessi með þessu frv. og öðrum sem ég hef nefnt að draga úr lýðræðislegri stjórnun stofnana en festa forstjóraveldið í sessi.