Náttúrufræðistofnun Íslands

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 18:01:28 (1006)

1998-11-05 18:01:28# 123. lþ. 21.8 fundur 205. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[18:01]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að mér dugi andsvar til þess að láta í ljósi viðhorf mín til ummæla hv. þm. Þakka honum út af fyrir sig fyrir að koma í umræðurnar og taka þátt í þeim og veita málinu athygli.

Ég tel ekki að frv. geti kallast andlýðræðislegt, spurning um menntahroka. Gerð er krafa um háskólamenntun en eins og ég gat um í framsöguræðu minni er þetta fræðistofnun á sviði náttúrufræða þar sem mikilvægt er að forsvarsmenn hafi góða þekkingu á þeim málum og því sviði sem verið er að fjalla um. En almennt er ég hins vegar sammála hv. þm. um viðhorf hans til þess að gera afdráttarlausa kröfu til þess að háskólamenntun sé einhver aðgangsmiði að stjórnunarstörfum. Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þm. en taldi að vegna eðlis þessarar stofnunar væri réttlætanlegt eða rétt að setja það hér inn, og lít svo á að í setningunni, sem er kannski ekki nógu nákvæm, felist það sem hv. þm. vitnaði til og ég leyfi mér að gera, með leyfi forseta:

,,Forstjóri skal hafa háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar.`` Úr því má lesa að það skuli vera háskólamenntun á verksviði stofnunarinnar en ekki kannski bara danska, heldur miklu fremur náttúrufræði eða annað sem tengist Náttúrufræðistofnuninni sem slíkri og verkefnum hennar þó danska eða önnur háskólamenntun sé auðvitað líka mikilvæg og góðra gjalda verð sem slík.

Um sumt erum við því sammála í þessu og athugasemdum hv. þm., en ég gef þessa skýringu á afstöðu minni til þess máls.

Varðandi stjórnir undirstrika ég og ítreka aftur að verið er að fara að þeim anda sem er í lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Auðvitað geta menn haft skiptar skoðanir um hvort þar var rétt að málum staðið. En hér er fyrst og fremst verið að færa mál til samræmis og þyrfti að taka þau öll fyrir, þ.e. samræmda heildarstefnu um það hvort stjórnir skuli vera í opinberum stofnunum eða ekki. Því miður liggur það ekki fyrir.