Náttúrufræðistofnun Íslands

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 18:05:41 (1008)

1998-11-05 18:05:41# 123. lþ. 21.8 fundur 205. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[18:05]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé rétt hjá hv. þm. að það er ekkert í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða starfsmannalögunum, eins og við köllum þau stundum, sem kveður á um það hvort stjórnir skuli vera eða ekki. Það er í raun slæmt að ekki skuli vera eitthvert samræmi í því. Svo er ekki. Það er mjög mismunandi hvort opinberar stofnanir eru með stjórn. Jafnvel er til nýleg löggjöf þar sem settar hafa verið stjórnir, sem voru ekki áður, og í sumum tilvikum er enn verið að tala um hvort ekki sé eðlilegt að setja stjórnir yfir einstakar opinberar stofnanir. Það getur auðvitað líka farið eftir eðli stofnananna hvort það skuli vera eða ekki.

Hvað varðar þá stjórn sem nú er yfir Náttúrufræðistofnun Íslands þá tel ég að það sé mjög óeðlilegt form því að það er svo að það er áskilið í lögunum að starfsmenn stofnunarinnar skuli sitja í stjórninni sem eru að sjálfsögðu þar með og eðli málsins samkvæmt undirmenn forstjórans. Það finnst mér ekki eðlilegt form á stjórn og því var a.m.k. ákveðið að gera breytingu á stjórnarforminu. Að því athuguðu taldi ég rétt að stíga skrefið til fulls og gera það í samræmi við önnur mál sem ég hef m.a. beitt mér fyrir, samanber það sem vitnað var til um lögin um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem heitir nú hollustuhættir og mengunarvarnir. Þar var stjórn lögð niður og ég taldi að það væri líka eðlilegt að gera það þá til samræmis af því ég taldi nauðsynlegt að gera á annað borð breytingar á stjórninni.