Húsnæðissparnaðarreikningar

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 14:19:42 (1014)

1998-11-11 14:19:42# 123. lþ. 22.4 fundur 61. mál: #A húsnæðissparnaðarreikningar# (heildarlög) frv., Flm. TIO (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[14:19]

Flm. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um húsnæðissparnaðarreikninga. Þetta frv. hefur verið flutt á nokkrum undanfarandi þinga og er nú flutt óbreytt frá því sem það var á síðasta þingi en á því þingi höfðu þá verið gerðar nokkrar breytingar.

Árið 1985 var komið á húsnæðissparnaðarreikningum eins og þeir voru þá kallaðir í lögum, í bönkum og sparisjóðum, og sköpuðu þessir reikningar rétt til sérstaks skattafsláttar. Þetta reikningsform var byggt á samningsbundnum innlánum sem voru tengd rétti til húsnæðislána og áttu að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði. Árið 1992 var ákveðið að skattafsláttur þessara laga yrði skertur í áföngum og árið 1997 var hann afnuminn.

Ekki verður séð að þær breytingar hafi orðið hér á landi sem leiði til þess að rétt sé að leggja af þetta sparnaðarform. Fremur hefur þróunin verið sú að ástæða er til þess að ýta undir sparnað í þjóðfélaginu og er það ekki síst með tilliti til þess að kaupmáttur hefur aukist hratt á Íslandi og raunar hraðar en í nágrannasamfélögunum. Ýmsir aðilar hafa lýst áhyggjum af vaxandi hættu á verðbólgu, telja jafnvel að nokkur merki séu um að hér sé dulin verðbólga. Við því má sporna með auknum sparnaði.

Þegar við lítum á íslenska húsnæðiskerfið er ljóst að það skiptir sköpum fyrir möguleika fólks á að eignast eigið húsnæði hve mikinn hlut kaupanna er hægt að fjármagna með eigin fé. Talið er að á almennum markaði verði húskaupendur að eiga um það bil 15% af kaupverði íbúðarinnar skuldlaust við fyrstu kaup. Þetta er þó nokkuð hærri krafa en almennt gerist annars staðar. Segja má að erlendis dugi að eiga um 10% kaupverðs og taka eitt lán fyrir 90% og er þá miðað við óverðtryggt fasteignaveðlán sem minnkar hratt vegna endurgreiðslna og vegna verðbólgu. Hér á Íslandi standa fólki aðeins til boða lán fyrir 70% íbúðaverðs og þar er um að ræða verðtryggð jafngreiðslulán sem greiðast mjög hægt upp. Það er algengt, eins og ég sagði áður, að hér sé eigið fé við fyrstu kaup um 15% en það sem á vantar er þá fjármagnað með skammtímalánum og má segja að þetta einkenni íslenska húsnæðislánakerfið og húsnæðismarkaðinn.

Í greinargerð með frv. er farið yfir nokkur dæmi sem eiga að varpa ljósi á það hve mikil áhrif eiginfjárstaða getur haft á stöðu húsnæðiskaupendanna. Þar er m.a. farið yfir það hversu aukning eigin fjár getur haft mikil áhrif greiðslubyrði skammtímalána og kemur þar í ljós að ef skuldlaus eignin er um 10% af kaupverði nálgast greiðslubyrðin af skammtímalánunum að vera 50%. Ef skuldlausa eignin hækkar upp í 25% af kaupverðinu er greiðslubyrði af skammtímaláninu komin niður fyrir 20%. Af þessu er augljóst að greiðslubyrði skammtímalána ræður mjög miklu um kaupgetu fólks og á það kannski ekki síst við um unga fólkið.

Annað dæmi er tekið um það hversu há mánaðarlaun fjölskylda þarf að hafa til að geta keypt þriggja herbergja íbúð. Í ljós kemur að ef eiginfjárstaðan nemur 10% af kaupverði þarf eigandinn að fá í laun um 285 þús. kr. á mánuði en ef eiginfjárstaðan nægir fyrir 20% af kaupverðinu nægja fjölskyldunni 218 þús. kr. til þess að kaupa sér þriggja herbergja íbúð. Þannig er hægt að fara yfir nokkur dæmi sem koma fram í greinargerðinni sem lýsa því hversu eiginfjárstaðan hefur afgerandi áhrif á kaupgetu fólks.

Einnig má nefna annað atriði sem snertir húsnæðiskerfið á Íslandi en það er að þegar fólk sem er með tekjur á bilinu 175--300 þús. kr. á mánuði en hefur mikla rýmisþörf, þarf stórt húsnæði, þá er það svo að í kerfi okkar er því gert mjög erfitt fyrir að kaupa nægilega stórt húsnæði í húsbréfakerfinu. Það verður því oft að kaupa í raun of litlar íbúðir og afleiðingin er mikil eftirspurn eftir smáum íbúðum en að sama skapi offramboð á stórum íbúðum, burt séð frá því hver hin raunverulega húsnæðisþörf er. Af þessum sökum hefur ekki verið innbyrðis samræmi í húsnæðisverði. Stórar eignir eru af þessum sökum ódýrar af því að fáir eru til að kaupa þær af kerfisástæðum í raun en litlar eignir dýrar af sömu ástæðu því margir eru um hituna. Ég hygg að samningsbundinn húsnæðissparnaður mundi hafa áhrif á þessa samsetningu markaðarins. Það er því hægt að fullyrða að með markvissum samningsbundnum sparnaði sé hægt að draga úr ýmsum neikvæðum áhrifum sem húsnæðiskerfið hér landi hefur skapað.

Eitt af því sem verður að teljast til nýjunga í frv. er að það heimilar að húsnæðissparnaðarreikningar verði nýttir til að fjármagna viðhald íbúðarhúsnæðis en það var ekki í lögunum frá 1985. Ástæðan fyrir því að rétt þykir að opna á þessar heimildir í þessu frv. er að á Íslandi hefur geysimikil áhersla verið lögð á nýbyggingar á undanförnum áratugum. Það er að sjálfsögðu tengt því hve húsakostur var lélegur og Íslendingar langt á eftir nágrannaþjóðum sínum í húsbyggingum. En nú er svo komið að á tiltölulega skömmum tíma hefur verið geysimikið byggt á Íslandi og það kallar á að við breytum svolítið um áherslur í húsnæðismálum okkar. Núna er nauðsynlegt að mæta húsnæðisþörfinni með viðhaldi og endurnýjun á eldra húsnæði, ekki síður en með nýbyggingum. Því er full ástæða til að leita leiða til þess að ýta undir viðhald íbúðarhúsa, bæði með skattalegum ívilnunum og samningsbundnum sparnaði.

Rétt er að geta þess að þjóðarauður okkar Íslendinga er að mestu leyti bundinn í húsnæði og meðalaldur íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á Íslandi er um 25 ár og þetta húsnæði er að mestu leyti byggt á eftirstríðsárunum. Viðhaldsþörf fasteigna þjóðarinnar hefur farið hraðvaxandi og ekki er óvarlegt að gera ráð fyrir því að mikil holskefla komi yfir þjóðina á næstu árum þar sem aðeins litlum hluta af þessu húsnæði hefur verið haldið við eins og skyldi. Það á bæði við um opinbera aðila sem og einkaaðila. Sjálfsagt tengist þetta að einhverju leyti þeirri oftrú sem hér var lengi á steinsteypu en komið hefur í ljós að hún er ekki alveg eins viðhaldsfrítt efni og menn höfðu bundið vonir við.

Í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands hefur komið fram að margt bendir til þess að um helmingur húseigenda vanmeti viðhaldsþörf fasteigna sinna. Því má segja sem svo að það blasi við að við þurfum að taka mun fastar á viðhaldsverkefnum á Íslandi og okkur er nokkur hætta búin af því að hafa ekki eytt meiri fjármunum til viðhalds húsnæðis.

Annar þáttur þessa máls tengist skattsvikum. Samkvæmt skýrslu fjmrn. um umfang skattsvika frá september 1993 kemur fram að áætluð nótulaus viðskipti séu langmest í byggingariðnaði. Heildarumfang skattsvika er áætlað um 6% af vergri þjóðarframleiðslu eða sem nemur 6,5 milljörðum kr. Hlutfall af nótulausum viðskiptum byggingariðnaðarins er reiknað sem 16% af rekstrartekjum. Um 21% aðila í byggingariðnaði sögðust samkvæmt þessari skýrslu taka á móti óframtöldum tekjum og um 16% einstaklingar sögðust hafa greitt fyrir slík viðskipti. Ætla má að megnið af þessum nótulausu viðskiptum byggingariðnaðarins eigi sér uppruna einmitt á viðhaldssviði greinarinnar, hjá einstaklingum og húsfélögum en síður hjá fyrirtækjum og stofnunum, vegna nýframkvæmda.

[14:30]

Mikilvægt er að grípa til aðgerða sem hvetja húseigendur til að eiga aðeins lögleg viðskipti. Með því að hvetja húseigendur til sparnaðar og með skattafslætti má hugsanlega ná þessu markmiði. Ef þetta frv. verður að lögum yrði ávinningurinn m.a. fólginn í því að með úttektarheimildinni yrði hvatt til þess að viðhaldsverkefnum væri skilað með fullgildum reikningum. Tekjur ríkissjóðs mundu aukast vegna minnkandi svartrar starfsemi og úttektarheimildin samkvæmt frv. mundi þá hvetja húseigendur til að auka viðhald húsnæðis og yrði þannig atvinnuskapandi aðgerð sem í sjálfu sér er jákvætt. Að lokum er eitt meginmarkmið frv. að varðveita betur þjóðarauð landsmanna sem er bundinn í fasteignum.

Ég vil einnig geta þess að þær litlu breytingar sem gerðar voru á frv. á síðasta ári vörðuðu einkum og sér í lagi 2. gr. og þó sérstaklega 3. gr. Í 2. gr. var raunar fellt brott ákvæði um að breyta upphæðum skv. byggingarvísitölu, en það er samkvæmt almennri stefnu stjórnvalda um að fella vísitöluviðmiðanir út úr lagatextum. Þá er einnig opnað á að húsnæðissparnaðarreikningar verði stofnaðir bæði við innlánsstofnanir og verðbréfafyrirtæki en þetta svið þjónustunnar hefur breikkað talsvert á síðustu árum. Ég vil geta þess sérstaklega að sú nefnd sem fær frv. til meðferðar þyrfti að skoða sérstaklega orðalag 4. gr. því hugsanlega þyrfti að breyta orðalagi þar með þetta atriði í huga.

Helstu efnislegar nýjungar frv. eru fólgnar í 3. gr. þar sem opnað er á að tekið sé út af þessum reikningum til viðhalds og endurbóta. Á sl. ári voru einnig sett inn í 3. mgr. ákvæði sem lúta að því hvernig fara skuli með ef reikningseigandi ráðstafar innstæðu til annarra nota en til öflunar íbúðarhúsnæðis, en einmitt þeir sem um málið hafa fjallað töldu þetta vera helsta akkillesarhælinn í þessu máli, þ.e. að litið yrði á þetta sem venjulega sparnaðarreikninga en ekki sem húsnæðissparnaðarreikninga.

Ég held ekki þurfi að gera grein fyrir fleiru í frv. að svo komnu máli. Ég veit að búið var að vinna mikið í málinu í efh.- og viðskn. og hafði það verið fullunnið í nefndinni. Efnislega hefur málið ekkert breyst frá síðasta ári þannig að ég tel ástæðulaust að vísa því til umsagnar. Ég vil því gera mér vonir um að hægt verði að taka málið til afgreiðslu og legg hér með til að eftir 1. umr. verði því vísað til hv. efh.- og viðskn.