Húsnæðissparnaðarreikningar

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 14:39:04 (1016)

1998-11-11 14:39:04# 123. lþ. 22.4 fundur 61. mál: #A húsnæðissparnaðarreikningar# (heildarlög) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[14:39]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég tek undir orð þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað, hv. frsm. Tómasar Inga Olrichs og hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar, um ágæti þessa frv.

Hins vegar verð ég að viðurkenna, þegar talað er um ákvæði þess hvernig skuli fara með svo að viðkomandi aðili öðlist skattafslátt vegna húsnæðissparnaðarreiknings, að ég á svo sem von á að það muni vefjast fyrir mönnum hvernig skuli fara með hin ársfjórðungslegu innlegg á þessa reikninga.

Það er oft svo að ungt fólk fylgist ekki mjög grannt með lögum og reglum um hvernig skuli bera sig að til að njóta þess sparnaðareiknings sem um er getið í frv. Það veit að slíkur reikningur er til en fer ekki alltaf að kafa djúpt ofan í leikreglurnar, þ.e. hvernig eigi að bera sig að.

Í 2. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Á hverju heilu tekjuári skal lágmarksfjárhæð vera 48.000 kr. en hámarksfjárhæð 480.000 kr. Spariféð leggist inn á reikninginn eigi sjaldnar en á hverjum ársfjórðungi almanaksársins og nemi á ársfjórðungi eigi lægri fjárhæð en 12.000 kr. og eigi hærri fjárhæð en 120.000 kr.

Samið skal fyrir fram til a.m.k. eins árs í senn um jöfn mánaðarleg eða ársfjórðungsleg innlegg en umsaminni fjárhæð má breyta árlega miðað við upphaf almanaksárs innan þeirra marka er getur í 2. mgr. Þó er heimilt að semja fyrir fram um lækkun á umsömdum sparnaði miðað við ársfjórðunga.``

Málið er gott. Það vefst ekkert fyrir mér. Hins vegar óttast ég að þetta atriði kunni að valda misskilningi og leiða kannski til þess að sú ágæta ætlan sem lagt er upp með í þessu lagafrv. missi að einhverju leyti marks. Ég þekki dæmi þó nokkurra ungra hjóna sem við sambúð áttu bæði inni á sparnaðarreikningi sem hér var fyrir og nefndur var í máli Guðjóns Guðmundssonar og þau þakka þessum sparnaðarreikningi að hafa eignast þak yfir höfuðið og geta staðið á eigin fótum varðandi eignaraðildina að íbúðinni og þeim afborgunum sem þau hafa tekist á hendur vegna íbúðarkaupanna. Dæmin eru þekkt um ágæti þessara sparnaðarreikninga. En það sem ég vildi hins vegar undirstrika er að málið verði ekki gert svo flókið að færri komist að en vilja inn á þennan reikning.

Herra forseti. Í 3. gr. er kveðið á um það sem síðasti ræðumaður kom inn á, að þeir sem orðnir eru 67 ára eða eru 75% öryrkjar geti þó fengið fé sitt til frjálsrar ráðstöfunar að fimm árum liðnum og að framlengja megi binditíma umfram tíu ár um eitt ár í senn, þó mest um fimm ár. Það sem vefst fyrir mér er hvort hér sé á ferðinni það sem aldraðir hafa oft verið að tala um, þ.e. að fá að leggja fjármagn inn á reikning til efri áranna og fá af þeirri upphæð hæfilegan skattafslátt. Ég skil þetta svo að þetta sé ekki bundið við að aldraðir eða öryrkjar þurfi að kaupa sér húsnæði þannig að þarna er kominn vísir að því sem bæði Félag eldri borgara í Reykjavík og Landssamband aldraðra hafa verið að tala um. Og er það vel.

Í 5. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Dragist innborgun umsamins innleggs eða hluta þess fram yfir lok ársfjórðungs er það skyldi lagt inn samkvæmt samningi við banka eða sparisjóð skv. 2. gr. skapar sá hluti innleggs, sem dregst fram yfir lok ársfjórðungs, ekki rétt til skattafsláttar.``

Þetta tengist þeim efa mínum sem ég lýsti áðan um réttmæti þessara skýru ákvæða um að hægt sé að njóta húsnæðissparnaðar og skattafsláttar, einfaldlega vegna þess að ég held að hér sé verið að flækja málin miklu meira en efni standa til og ástæður eru. Ef einkum og sér í lagi er litið til skattkerfisins eins og það er uppbyggt þá held ég að þetta kalli fram meiri vanda en það leysir. Ég teldi eðlilegt að ákvæðin um innlögn í banka eða sparisjóð yrðu heldur frjálsari, enda þótt þá skattafslátturinn nýtist.

Með þessu er ég ekki á nokkurn hátt að draga úr þessu frv. Ég styð það heils hugar. En ég tel þó rétt að við reyndum að gera það þannig úr garði að það valdi ekki neinum misskilningi vegna þess, eins og við þekkjum, að ungt fólk setur sig ekki svo mjög inn í lagabókstafinn. Það veit af þessum reikningum eftir að frv. verður væntanlega samþykkt á hinu háa Alþingi en yrði síðan e.t.v. vísað frá vegna einhverra formgalla sem þetta unga fólk hefur ekki áttað sig á og það kynni að draga þann dilk á eftir sér að áhugi þess fyrir málinu yrði hreinlega lítill sem enginn.