Vinnuumhverfi sjómanna

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 15:11:27 (1021)

1998-11-11 15:11:27# 123. lþ. 22.6 fundur 81. mál: #A vinnuumhverfi sjómanna# þál., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[15:11]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég flyt till. til þál. um vinnuumhverfi sjómanna og er það sprottið af sömu ástæðum og ég gat um áðan. Meðflutningsmenn að þáltill. eru hv. þingmenn Gísli S. Einarsson, Guðjón Guðmundsson, Kristinn H. Gunnarsson og Stefán Guðmundsson.

Þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stuðla að því að vinnuumhverfi sjómanna sé bætt. Meðal annars þarf að huga að mengunarvörnum um borð í skipum, eftirliti með meðferð matvæla og meðferð hættulegra efna, auk þess sem gefa þarf gaum að vinnuvernd um borð í fiskiskipum og kaupskipum á þann hátt að um vinnuumhverfi sjómanna gildi \mbox{vinnu-,} hollustu- og mengunarvarnareglur sambærilegar við þær sem gilda hjá öðrum starfsstéttum.``

Í grg. segir svo, með leyfi forseta:

,,Að undanförnu hefur mikið verið rætt um mengun hafsins og útblástur skipa, en lítið hefur verið fjallað um mengun um borð í skipum. Á Íslandi eru ekki í gildi lög sem taka á mengun í skipum.``

Þó ber þess að geta að í lok síðasta þings var samþykkt lagabreyting frá umhvrh. þess efnis að öll skip sem sigla undir íslenskum fána skuli falla undir lög Vinnueftirlits ríkisins. Þess vegna er von á úrbótum í því sambandi. Í þessum lögum er það merka nýmæli að lög um hollustuhætti taki til farkosta sem ferðast undir íslenskum fána.

,,Skýringar með ákvæðinu eru að vísu rýrar, en af því má draga þá ályktun að eftirlit Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðiseftirlits muni í framtíðinni ná til allra skipa sem sigla undir íslenskum fána. Í kjölfar samþykktar nýrra laga um hollustuhætti verði þannig sama eftirlit með hollustuháttum á vinnustöðum í landi og í skipum. Mikilvægt er að fylgja þessari lagabreytingu eftir og huga sérstaklega að vinnuumhverfi sjómanna.``

Mig langar aðeins, virðulegi forseti, að vitna til nokkurra atriða sem varða þetta mál af þeim ástæðum að þessum málum hefur ekki verið mikill gaumur gefinn. Í ágætri grein sem Guðbjartur Einarsson vélfræðingur skrifaði í Morgunblaðið kemur eftirfarandi fram:

,,Kastljósi umhverfissinna og mengunarsérfræðinga hefur á síðasta áratug verið beint að skipaflota heimsins. Ótal skýrslur hafa verið samdar og ráðstefnur haldnar um mengun frá skipum. Spjótin hafa beinst að ytri mengun, aðallega þó útblæstri (afgasi) og áhrifum þess á ósonlagið vegna gastegunda.

Á meðan augu manna hafa beinst að ytri mengun frá skipum, hefur minna borið á umfjöllun um innri mengun. Sérfræðingar um innri mengun í skipum hafa þó ekki setið aðgerðalausir. Margar rannsóknir sem sýna fram á slæmt heilsufar sjómanna hafa verið gerðar. Full þörf er að taka þær alvarlega. Svo virðist sem goðsögnin um hinn hrausta og heilbrigða sjómann lifi vel á meðal þeirra sem setja reglur um mengunarvarnir. Að minsta kosti mætti ætla það þegar litið er til þess að til eru mengunarvarnareglugerðir fyrir allar starfsstéttir í landinu nema sjómenn, en alls starfa um sex þúsund manns á fiski- og fraktskipum okkar Íslendinga.``

[15:15]

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Það kom skýrt fram í málflutningi Kristins Ingólfssonar, tæknifræðings hjá Siglingastofnun ríkisins, á ráðstefnu Vélstjórafélags Íslands í jan. sl. [þ.e. 1997], um umhverfismál vélstjóra, að stofnunin hefur takmarkaðar eða engar reglur varðandi vinnu og umhverfisvernd að styðjast við varðandi sjómenn og því erfitt að láta að sér kveða á þeim vettvangi. Samkvæmt þessu mætti ætla að engin innri mengun væri um borð í íslenskum skipum, en svo er ekki. Málið er mun alvarlegra en menn gera sér almennt grein fyrir.

Tveir meginþættir. Deila má innri mengun skipa í tvo meginþætti:

1. Mengun í vélarrúmi: olía, olíugufur, snefilefni, afgas.

2. Loftmengun, vistarverur, vélarrúm: frá útblæstri véla (afgas).``

Þá má líka geta þess að sjómenn eru að fást við alls kyns efni sem þeir nota og eru starfi þeirra tengd og eru þau mörg mjög viðsjárverð.

,,Á ráðstefnu, sem haldin var í Færeyjum árið 1995, um umhverfismál sjómanna þar sem saman voru komnir mengunarsérfræðingar frá öllum Norðurlöndunum og víðar, vakti umræða um slæmt heilsufar vélstjóra mikla athygli. Kom þar fram að þeir sem vinna í vélarrúmum skipa eru í sérstökum áhættuhópi hvað varðar krabbamein og öndunarfærasjúkdóma. Hjá þeim er 2--3 sinnum meiri tíðni krabbameins en hjá öðrum. Þegar skoðað er vinnuumhverfi vélstjóra þarf ekki að koma á óvart að rannsóknir sýni fram á að þar sé víða pottur brotinn. Þeir þurfa að umgangast ýmsar olíur, sterk hreinsiefni, olíueim og sót allt upp í 300 daga á ári.

Með þetta starfsumhverfi í huga koma rannsóknir dr. Vilhjálms Rafnssonar læknis ekki á óvart. Dr. Vilhjálmur tók ásamt öðrum sérfræðingum þátt í viðamiklum rannsóknum á dánarmeinum og nýgengi krabbameina hjá vélstjórum á árunum 1936--1982. Skýrslan var birt 1984 og sýnir að starfsumhverfi vélstjóra hefur af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ekki notið verndar löggjafans.

Það er alvarlegt mál fyrir yfirvöld og kann síðar koma þeim í vanda að þau kunna að hafa haft vitneskju um að eitthvað óeðlilegt væri hér á ferð án þess að aðhafast nokkuð.

Í fyrstu mætti ætla að loft sem dælt er inn í vistarverur skipverja, væri hreina og tæra sjávarloftið sem er laust við alla mengun. Við athugun og vegna kvartana marga, bæði vélstjóra og annarra skipverja yfir slæmu lofti í vistarverum skipverja, kom eftirfarandi í ljós: Á stórum hluta íslenska flotans er inntak á fersku lofti fyrir vistarverur og vélarrúm staðsett á eða við skorsteinshúsið eða í námunda við útblástur. Kröftugir loftblásarar taka ekki aðeins ferska loftið, heldur taka við ákveðnar aðstæður, einnig með sér hluta af útblæstri vélanna. Öllum má vera það ljóst að það að fá inn í vistarverur, vélarrúm, og vinnuumhverfi útblástur (afgas) frá vélunum, með öllum þeim hættulegu gastegundum sem þar er að finna, er mjög skaðlegt heilsunni. Á einstaka skipum er það svo alvarlegt að skipverjar vakna með sót undir nefi og sót og olía sest á innþiljur, matvæli og fiskafurðir. Það er óhætt að fullyrða að þetta vandamál nái yfir 90% af flotanum.

Innri mengun í skipum þarf að taka föstum tökum. Það er hagur útgerðarinnar, sjómannsins og ekki síst heilbrigðiskerfisins sem að lokum greiðir reikninginn með skattpeningum fólksins ef þessi mál eru í ólestri. Um vinnuumhverfi sjómannsins eiga að gilda sambærilegar vinnu-, hollustu- og mengunarreglur sem eru hjá öðrum þegnum þessa lands.``

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. umhvn.