Átak til að draga úr reykingum kvenna

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 15:49:48 (1026)

1998-11-11 15:49:48# 123. lþ. 22.9 fundur 95. mál: #A átak til að draga úr reykingum kvenna# þál., Flm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[15:49]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um sérstakt átak til að draga úr reykingum kvenna. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Kristín Halldórsdóttir.

Þessi tillaga var lögð fram á Alþingi sl. vetur, en varð þá eigi útrædd og er lögð fram að nýju vegna mikilvægis málsins.

Tillagan gengur út á það að fela heilbrigðisráðherra að efna til sérstaks átaks til að draga úr reykingum kvenna. Verði sjónum einkum beint að stúlkum og ungum konum þannig að takast megi að koma í veg fyrir að stúlkur hefji reykingar og þær sem byrjaðar eru hætti.

Á undanförnum árum hefur margsinnis komið fram að íslenskar konur eru meðal mestu reykingakvenna í Evrópu. Aðeins danskar konur reykja meira en þær íslensku samkvæmt mínum upplýsingum, en þessar tölur geta auðvitað breyst frá ári til árs. En svo mikið er víst að það er staðreynd að íslenskar konur eiga heimsmet hvað varðar lungnakrabbamein og dauða af völdum lungnakrabbameins sem fyrst og fremst er rakið til reykinga. Þetta eru hrikalegar staðreyndir, hæstv. forseti.

Á undanförnum árum hefur dregið verulega úr reykingum karla. Það hefur líka dregið úr reykingum kvenna en ekki nærri því eins mikið og karlanna. Það vekur spurningar um það hvort konur eigi erfiðara með að hætta að reykja. Bent hefur verið á ýmislegt sem því tengist. Bara sú staðreynd að líkamar kvenna eru minni en líkamar karla á meðan þær reykja sama magn og karlarnir gerir það að verkum að konur verða kannski enn þá háðari nikótíni en karlar.

Bandarískar rannsóknir hafa leitt í ljós, sem ekki er mikið hampað, að nikótín er miklu sterkara eitur en menn hafa viljað viðurkenna. Eins og kemur fram í greinargerðinni heyrði ég bandarískan lækni segja að samanburðarrannsóknir sýndu að rottur gera engan greinarmun á nikótíni og heróíni, engan. Þær verða jafnháðar báðum þessum eiturefnum. Það er alkunna að heróín er stranglega bannað og harðar refsingar liggja við því að neyta þess en tóbak er selt ómælt. (Gripið fram í: Af ríkinu.) Já, af ríkinu eins og hv. þm. bendir á. Margt þarf því að athuga í þessum efnum, en þarna á auðvitað hefðin og sagan hlut að máli.

Á liðnum vetri gekkst heilbrrn. fyrir ráðstefnu um heilsu kvenna sem var fjölsótt og kom þar margt merkilegt fram. M.a. voru fluttir fyrirlestrar um reykingar kvenna. Þar kom fram að stúlkur hefja reykingar sífellt yngri. Samanburðarrannsókn leiddi í ljós að um 1960 hófu konur reykingar yfirleitt eftir tvítugt en núna byrja þær 14--15 ára gamlar sem þýðir að sá tími ævinnar sem konur reykja hefur lengst mikið og þar af leiðandi er líkaminn í miklu fleiri ár að glíma við nikótínið og afleiðingar þess og þar af leiðandi er mun meiri hætta á sjúkdómum.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að tengja má neyslu á tóbaki eða nikótíni við marga sjúkdóma. Sýnt hefur verið fram á tengsl þess við marga sjúkdóma, ekki aðeins lungnakrabbameinið sem ég gat um í upphafi heldur einnig aðrar tegundir krabbameins auk þess sem það tengist beinþynningu, hjarta- og æðasjúkdómum og fleiri sjúkdómum. Það er því algerlega ljóst að þessi mikla eiturnotkun og misnotkun á tóbaki --- okkur vantar gott orð yfir þetta á íslensku. Á norðurlandamálum er talað um ,,misbrug``. Þetta er misnotkun á eiturefni. Það er alveg ljóst að misnotkun á þessu eiturefni kostar samfélagið gríðarlegar upphæðir og einstaklingana miklar hörmungar. Því miður fjölgar þeim stöðugt sem verða veikir vegna langvarandi tóbaksneyslu og kemur það auðvitað til að nú eru þeir hópar kvenna sem hafa reykt frá unga aldri að ná eða að komast yfir miðjan aldur og jafnvel á elliár. Eins og margir vita tíðkaðist það yfir höfuð ekki í upphafi aldarinnar að konur notuðu tóbak. Þetta er auðvitað einn ósiðurinn sem konur hafa tekið upp eftir körlum, því miður.

Við þessu þarf eitthvað að gera, hæstv. forseti, og hér er verið að leggja til að heilbrrn. beiti sér sérstaklega og beini sjónum fyrst og fremst að ungum stúlkum sem eru einn af markhópum tóbaksframleiðenda. Tóbaksframleiðendur hafa beint sjónum mjög að ungu fólki, þar á meðal konum, og þess er getið í greinargerðinni að á síðasta ári urðum við mikið vör við að tóbaksframleiðendur auglýstu vindla og sýndu myndir þar sem konur voru að reykja vindla og það virtist vera sérlega töff, ef ég ég má nota það orð, hæstv. forseti, eða eitthvað hetjulegt við það að sýna konur að reykja vindla. En reykingar kvenna á vindlum hafa verið mjög óalgengar nema í Danmörku af einhverjum ástæðum sem ég þekki ekki, en þar hefur verið býsna algengt að konur hafi reykt vindla.

Tóbaksframleiðendur beina sjónum sínum að konum og sérstaklega ungum stúlkum til þess að fá þær til að byrja. Þetta er spurningin um að heilbrigðisyfirvöld beiti sér í þá veru að vinna gegn reykingum kvenna vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem þær hafa fyrir heilsufar þeirra.

Auðvitað má hvorki gleyma karlmönnum né drengjum. En eins og ég nefndi í upphafi þá hefur dregið mun meira úr reykingum karla en kvenna þannig að hér er greinilega málefni sem þarf að taka á. Við þekkjum öll hversu alvarlegt heilsufarslegt vandamál reykingar eru og það að þær verða sífellt stærra viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar. Nýlega var bent á að á næstu árum munu tugir þúsunda Íslendinga deyja af völdum tóbaksreykinga þannig að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða, hæstv. forseti. Það þarf að beita miklu meiri áróðri og aðgerðum til þess að reyna að draga úr reykingum því að áróðurinn á móti er mjög mikill.

Að lokinni þessari umræðu, legg ég til, að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. heilbr.- og trn.