Átak til að draga úr reykingum kvenna

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 16:06:13 (1029)

1998-11-11 16:06:13# 123. lþ. 22.9 fundur 95. mál: #A átak til að draga úr reykingum kvenna# þál., DH
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:06]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég fagna þessari tillögu um sérstakt átak til að draga úr reykingum kvenna. Það er afskaplega ömurlegt að horfa til þess að á þessu sviði, í reykingum, hafa konur náð jafnrétti á við karla.

Ungt fólk sem reykir er líka auðveldari bráð þegar því eru boðin fíkniefni. Ef þau byrja að reykja eru þau veikari fyrir. Það er dapurlegt að fylgjast með unglingum híma reykjandi undir húsveggjum í frímínútum. Það verður að vera stöðugur áróður gegn reykingum. Ímynd kvenna í tískuheiminum hefur verið núna í mörg undanfarin ár þetta heróín-útlit, þar sem allir eru þvengmjóir. Hverjir eru það sem skapa þessa tísku? Það eru karlar. Það eru ekki konur sem skapa þessa tísku. Ímyndin er sú: Reyktu og vertu grönn. Þannig áttu að vera.

Fyrir nokkuð mörgum árum var mikil herferð gegn reykingum sem gafst mjög vel. Þar voru ungar stúlkur með áróður gegn reykingum. Við verðum að halda stöðugt áfram en það verður alltaf að koma eitthvað nýtt í auglýsingaherferðum gegn reykingum. Við verðum að snúa þessari þróun við. Ég hvet til þess að veitt verði aukið fjármagn til þessara mála.