Aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 16:12:55 (1031)

1998-11-11 16:12:55# 123. lþ. 22.10 fundur 98. mál: #A aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna# þál., ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:12]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir þessa þáltill. Mjög stór hópur kvenna býr við afar erfiðar aðstæður, bæði fjárhagslega og félagslega. Þær eru oft einstæðar og með mikla vinnuskyldu og þurfa þar af leiðandi að sinna bæði vinnunni sinni, félagsmálunum, börnum sínum og öllu sem að þeim snýr. Þær bera ábyrgðina einar. Þegar svona sjúkdómur kveður dyra koma oft upp þær aðstæður að þær eiga ekki í nein hús að venda.

Eftir veikindarétt á vinnumarkaði tekur við tímabil á sjúkradagpeningum frá Tryggingastofnun og síðan eftir einhvern tíma hugsanlega örorkubætur. Eins og hv. þm. kom inn á er fólk komið í ákveðinn vítahring sem erfitt er að komast út úr. Eins og komið hefur fram er líka tabú að ræða um þunglyndi, og það er tabú yfirleitt að ræða um geðsjúkdóma, en ég held ef umræður yrðu um þunglyndi væru fyrirbyggjandi aðgerðir mögulegar. Ég hvet eindregið til að tillagan fái jákvæða meðhöndlun.