Aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 16:14:33 (1032)

1998-11-11 16:14:33# 123. lþ. 22.10 fundur 98. mál: #A aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:14]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka flutning þessarar tillögu. Hún er þörf og eins og síðasti ræðumaður nefndi þá eru sum mál í felum. Við höfum rætt um kynferðislega áreitni í dag. Það er búið að ræða um kynferðislega misnotkun barna. Í dag er viðurkennt að þessi mál eru til. Eins er með þunglyndi kvenna. Konur eiga það frekar á hættu en karlar að fá þunglyndiseinkenni.

[16:15]

Einkennin eru mismunandi og við verðum að ræða þau og láta þau koma upp á yfirborðið þannig að við þekkjum þau því það er mjög erfitt fyrir marga að átta sig á einkennunum. Ég tel því að mjög heppilegt væri að gera sérstaka kynningarbæklinga eða kynningarátak sem höfðar til kvenna. Það er búið að gefa út mjög góða bæklinga, að ég tel, um þunglyndi og þeir liggja frammi á heilsugæslustöðvum. Þeir eru aðgengilegir, skýrir og góðir en sá bæklingur sem fjallar um þunglyndi er almenns eðlis og ég gæti trúað því að konur taki þann bækling ekkert sérstaklega til sín. Fæðingarþunglyndi þekkja konur einar, en jafnvel við þær aðstæður þar sem maður teldi að það að ganga í gegnum fæðingarþunglyndi væri eitthvað sem konur áttuðu sig á, þá gera þær það ekki allar. Við sjáum því að það þarf fekari kynningu og opna umræðu og því tek ég undir tillöguna og tel mjög æskilegt að opin umræða verði og að sérstaklega verði höfðað til kvenna með útgáfu á fræðsluefni.